zika

Zika veiran – eins og áður hefur komið fram – er talin valda því að börn mæðra sem sýkjast af veirunni á meðgöngu, fæðist með dverghöfuð. Fjölmargar rannsóknir hafa verið unnar á veirunni sem styðja meira og minna tilgátur um skaðsemi veirunni.

Nú nýverið birtist rannsókn í tímaritinu New England Journal of Medicine þar sem sýnt er fram á tilvist zika veirunnar í þungaðri konu á sama tíma og fylgst er með þroska fósturs hennar.

Í ljós kom að þroski heilans var ekki eins og skyldi þegar zika veiran var til staðar. Konan hafði verið á ferðalagi um mið-Ameríku þar sem hún var bitin af moskítóflugum. Hún veiktist síðan í kjölfarið. Þegar sýni voru tekin greind úr móður, föður og fóstri kom í ljós að veiran hafði tekið sér bólfestu í fósturvefnum. Helst var veiruna að finna í heilavef fóstursins.

Á sama tíma og veiran greindist í blóði móður var hægt að fylgjast með þroskastigi heila fóstursins sem því miður sýndi ekki eðlilegan þroska.

Þessar niðurstöður staðfesta tilgátur vísindamanna um skaðsemi zika veirunnar á heilaþroska fóstra. Þessi rannsókn markar því ákveðin tímamót í rannsóknum á zika veirunni. Með tíð og tíma verður vonandi hægt að koma í veg fyrir smit sem þessi og þannig skaðann sem zika veiran veldur í fósturþroska.