zika

Zika veiran komst í hámæli um allan heim uppúr áramótum 2016 þegar grunur lék á að hún ylli fósturskaða. Skaðinn felst í því að fóstur kvenna sem komast í snertingu við veiruna fæðast með svokallað dverghöfuð, en börn sem fæðast með slíkan skaða eru með minni heila en eðlilegt þykir og getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn.

Eftir fjölmargar rannsóknir þótti ljóst að áhrif veirunnar væru á þann hátt að hún réðist á forverafrumur taugafrumna í fósturvef, frumur sem tóku þátt í að mynda taugakerfið. Frumur sem urðu fyrir áhrifum frá veirunni veikluðust of mikið til að halda áfram að þroskast og skipta sér.

Þessir eiginleikar veirunnar vöktu áhuga vísindahóps við Washington University in St. Louis sem vann að rannsóknum á krabbameini í heila, nánar tiltekið glioblastoma. Krabbamein af þessu tagi hafa reynst erfið viðureignar, vegna þess að stofnfrumur krabbameinsins virðast lifa krabbameinsmeðferðina af.

Meðferð gegn glioblastoma er ekki auðveld, henni fylgir skurðaðgerð ásamt lyfja og geislameðferð. Þrátt fyrir þetta er mjög algengt að krabbameinið taki sig upp aftur u.þ.b. 6 mánuðum eftir meðferð. Þá kemur zika veiran, vonandi, til sögunnar. En veiran ræðst á forverafrumur taugafrumna réttara sagt vefjasérhæfðar stofnfrumur taugakerfisins.

Til að skoða áhrif veirunnar á krabbameinið notaðist hópurinn m.a. við sýni fengin úr sjúklingum með glioblastoma. Þegar sýnin voru meðhöndluð með veirunni sýkti veiran að stórum hluta frumur sem einnig höfðu stofnfrumulíka eiginleika. Veiran hafði lítil sem engin áhrif á aðrar frumur í krabbameininu.

Til að staðfesta þessar niðurstöður voru mýs með glioblastoma einnig sýktar með zika veirunni, en æxlin í músunum sýndu sömu viðbrögð og vefjasýnin. Aðaláhrif veirunnar voru í báðum tilfellum á stofnfrumurnar. Þetta þýðir að mögulega væri hægt að nota hefðbundar aðferðir gegn krabbameininu ásamt því að nota veirur til að stöðva uppruna mögulegra nýrra krabbameina.

Það hljómar frekar illa að koma veiru sem þessari fyrir í taugakerfið lifandi einstaklinga. En þau hræðilegu áhrif sem veiran hefur á fóstur sem eru að þroskast eru einmitt það sem gerir veiruna fýsilega til að meðhöndla fullorðinn einstakling sem er með fullþroska taugakerfi. Veirurnar virðast beina kröftum sínum að vefjasérhæfðum stofnfrumum taugakerfisins, en lætur fullþroskaðar frumur svo gott sem eiga sig.

Frekari rannsóknir munu vonandi leiða í ljós nánari útfærslu á hvernig zika veiran verður notuð sem meðferðarúrræði gegn krabbameini í heila.