Mynd: Tico Times
Mynd: Tico Times

Eins og lesendur Hvatans hafa eflaust tekið eftir þá olli zika veiran heilmiklu fjaðrafoki í byrjun síðasta árs þegar hún varð uppvís af því að valda fósturskaða. Margir hafa eflaust velt því fyrir sér hvers vegna við höfðum ekki áður heyrt af skaðlegum áhrifum zika veirunnar.

Svarið er í raun einfalt, zika veiran var svo til skaðlaus þangað til u.þ.b. um mitt ár 2013. Fram að því olli zikaveirusmit í mesta lagi smá hita. Árið 2013 varð svo örlítil breyting á veirunni sem gerði hana að þeim skaðvaldi sem við þekkjum hana sem. Þetta eru niðurstöður rannsóknar þar sem erfðafræðileg klukka veirunnar var skoðuð.

Saga zika veirunnar er mun lengri en sú sem við, almenningur á Íslandi hefur heyrt. Hún fannst fyrst árið 1947 í apa í afskekktri byggð í Úganda. Með útbreiðslu moskítóstofnsins sem ber hana sem og aukinni útbreiðslu mannfólkst færði veiran hægt og bítandi út kvíarnar og hefur nú náð að dreifa sér um stóran hluta Suður-Ameríku, auk þess sem hún finnst í fjölmörgum ríkjum Norður-Ameríku, Afríku og Asíu.

Til að rannsaka þróun veirunnar skoðaði hópurinn erfðaefni þriggja afbrigða af veirunni, sem öll voru einangruð á mismunandi stöðum í heiminum á árunum 2015 – 2016. Erfðaefni þessara veira var raðgreint og borið saman við erfðaefni sameiginlegrar forveiru þeirra allra sem var einangruð í Kambódíu árið 2010.

Með þessu móti er hægt að skoða hvaða breytingar verða á erfðaefni veirunnar og hvaða áhrif þær hafa á tjáningu genanna. Þegar hópurinn fann breytingar sem hafa áhrif á tjáningu gena eða afurð þeirra voru áhrif þeirra breytinga könnuð. Það var gert með þeim hætti að upprunastofninn var erfðabreyttur til að gefa samskonar breytingar og nýju stofnarnir. Veirunar voru síðan notaðar til að sýkja músaheila og áhrif sýkingarinnar var mæld.

Samkvæmt niðurstöðum hópsins er hægt að rekja eiginleika zika veirunnar til að valda þessum gríðarlega skaða á taugakerfi fóstra, til einnar stökkbreytingar í einu geni veirunnar. Það sem meira er, þá getur hópurinn nokkurn veginn tímasett hvenær þessi breyting kom til en það var um mitt ár 2013. Veiran hefur svo að öllum líkindum ratað til Brasilíu í kringum íþróttaviðburði þar í landi árið 2014 og loks náð nægilegri útbreiðslu árið 2015 til að eiginleikar hennar til fósturskaða kæmu í ljós.

Þessi rannsókn bætir ekki einungis í gagnabankann okkar um zika-veiruna heldur geymir hún einnig heilmikinn fróðleik um hegðun og þróun veira almennt. Hvað zika-veirufaraldinn varðar þá virðumst við vera að sjá fyrir endann á honum, í þessum heimshluta í það minnsta. Ástæðan er sú að þeir sem lifa á svæðinu hafa líklega flestir nú þegar komist í snertingu við veiruna og eru því orðnir ónæmir fyrir henni.

Á meðan veiran breiðist ekki hraðar út en raun ber vitni höfum við ennþá tíma til að klára að þróa bóluefni svo restin af heiminum geti einnig orðið ónæm.