Mynd: Concious life news
Mynd: Concious life news

Nú þegar búið er að staðfesta áhrif zika veirunnar á fóstur eru rannsóknir á veirunni og áhrifum hennar bara rétt að byrja. Helsta verkefni vísindahópa um heim allan er nú að skilgreina hvað það er sem sýking af völdum zika veirunnar gerir og hvernig má mögulega koma í veg fyrir það.

Til að svara þessari spurningu notaðist vísindahópur við UC San Diego, við stofnfrumulínur og sérstaka ræktunaraðferð sem gerir það að verkum að frumulínurnar mynda þrívíða byggingu. Þannig bjó vísindahópurinn til frumumassa sem líkist heilavef í fóstri á 8. – 9. viku fósturþroska. Frumumassinn var síðan annars vegar sýktur með zika veiru og hins vegar ekki sýktur og svo var fylgst með hvaða munur væri á frumuræktunum.

Í ljós kom að heilavefurinn sem var sýktur með zika hægði verulega á stækkun sinni í samanburði við það ósýkta. Þegar genatjáning frumnanna var skoðuð sást að við zika veirusmit jókst tjáning á prótíninu TLR3. TLR3 gegnir mikilvægu hlutverki í ónæmisviðbragði líkamans við veirusýkingum, en þegar veirur komast inní líkamann binst TLR3 við erfðaefni þeirra og merkir það þannig til eyðileggingar. Í fósturvef verða áhrifin þó víðtækari.

TLR3 setur nefnilega af stað tjáningu á tugum annarra gena, sem flest koma við sögu í ónæmissvari. Breyting á tjáningu þessara gena í fósturþroska setur frumusérhæfingu, sem er nauðsynleg við myndun líffæra, úr skorðum og úr verður að frumurnar hætta að þroskast og fara þess í stað margar hverjar í stýrðan frumudauða.

Hópurinn prófaði einnig, til að staðfesta að um áhrif frá veirunni var að ræða, að hindra TLR3 prótínið. Við þær aðstæður hafði zika veiran ekki sambærileg áhrif á þroskun fósturvefjarins en þó voru vísbendingar um að hindrun á TLR3 dugði ekki til ein og sér til að koma í veg fyrir vanþroskun heilans.

Næstu skref eru að skilgreina hvaða fleiri leiðir zika veiran getur farið í að hafa þessi áhrif á taugaþroskun, og staðfesta síðan í vef, en rannsóknin sem birtist í Cell Stem Cell var einungis framkvæmd í frumuræktunum. Rannsóknir sem þessar færa okkur nær því að geta meðhöndlað zika veirusmit, svo ekki verði úr varanlegur skaði fyrir ófædda einstaklinga.