Mynd: Times-Picayune
Mynd: Times-Picayune

Leiðtogar 10 af stærstu olíufyrirtækjum heims gáfu nýverið út yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir stuðningi sínum við árangursríkan samning um loftslagsmál á 21. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fer fram í París í lok nóvember.

Um er að ræða fyrirtæki á borð við BP, Shell, Saudi Aramco og Total en saman framleiða fyrirtækin um 10% orku heimsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að markmið fyrirtækjanna sé að stuðla að því að takmarka hlýnun jarðar við 2°C. Að auki segir að fyrirtækin skuldbindi sig til að taka þátt í baráttunni og að þau muni reyna að gera framleiðslu sína skilvirkari. Einnig er tekið fram að á síðastliðnum 10 árum hafi fyrirtækjunum tekist að minnka losun sína um 20%.

Ekki eru allir sannfærðir um ágæti yfirlýsingarinnar og er Greenpeace meðal þeirra. Þeir sem talað hafa gegn yfirlýsingunni telja að framtak olíufyrirtækjanna muni hafa lítið að segja í baráttunni við hlýnun jarðar, enda gengur starfsemi fyrirtækjanna út á að framleiða mengandi orkugjafa.

Framkvæmdastjóri Total, Patrick Pouyanne, hefur aftur á móti bent á að eins og staðan er í dag sé notkun á jarðefnaeldsneyti nauðsynleg, óháð því hvaða skoðun fólk hefur á því.