Mynd: Algea Trends
Mynd: Algea Trends

Eitt af þeim fjölmörgu vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir er uppsöfnun á rusli. Hægt er að takmarka sorp að einhverju leiti með endurvinnslu en fæst efni er hægt að endurvinna að fullu. Þar á meðal er plast sem er aðeins hægt að endurnýta upp að vissu marki. Nú virðist þó verið lausn í sjónmáli því bandarískum vísindamönnum hefur tekist að búa til 100% endurvinnanlegt plast sem er auk þess laust við jarðolíu.

Það voru vísindamenn við Colorado State University sem þróuðu nýja plastið með því að nota einliðu sem nefnist Gamma-butyrolactone (GBL). GBL er nú þegar að finna í til dæmis hreinsiefnum en fram að þessu hefur verið talið að ekki væri hægt að breyta því í fjölliðu. Þrátt fyrir það ákváðu vísindamennirnir að reyna og tókst þeim ætlunarverk sitt.

Nýja plastið hefur fengið heitið poly(GBL) og er að sögn rannsóknarhópsins hægt að endurnýta á einfaldan hátt. Plastið er einungis hitað við 220-300 gráður í um klukkustund en við það myndar það GBL á ný og má þannig endurvinna það að fullu.

Nú þegar hefur verið sótt um einkaleyfi fyrir plastinu en vísindamennirnir vonast til þess að það muni geta komið í stað annarra plasttegunda í framtíðinni. Hvor það gerist veltur að miklu leiti á því hvort hægt sé að framleiða plastið á svo hagkvæman hátt að það borgi sig fjárhagslega að nýta það.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature Chemistry.