_84270464_p_lorri_fullframe_color

Söguleg stund átti sér stað í gær þegar geimfar NASA New Horizons flaug framhjá Plútó á ógnarhraða (14 km/sek). Áður hafði geimfarið sent frá sér myndina hér að ofan af dvergplánetunni. Búist er við því að næstu myndir sem almenningur fær að sjá af Plútó verði í 10 sinnum betri upplausn en þær sem hafa þegar verið birtar.

Flugferð New Horizons er sérstaklega merkileg fyrir þær sakir að nú hafa þau níu fyrirbæri sem margir telja að sólkerfi okkar samanstandi af verið heimsótt af geimfari allavega einu sinni. Þau eru, í réttri röð frá sólu pláneturnar Merkúr, Venus, Jörðin, Mars, Júpiter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og dvergplánetan Plútó.

Tilgangur heimsóknarinnar til Plútó er að reyna að svara spurningum á borð við það hvernig dvergplánetan myndaðist og skýra jarðfræði hennar og tunglsins Charon.

Áætlað var að New Horizons hefði samband við NASA klukkan 00:53 í dag gegnum gervihnattadisk sem staðsettur er í Madríd á Spáni og er í eigu NASA. Því má búast við fleiri myndum frá geimfarinu seinna í dag og verður fréttin uppfærð þegar fleiri myndir birtast.

Hér að neðan má sjá myndir af Plútó og tunglinu Charon:

_84276173_untitled (1)

Tengdar fréttir:
Rosetta finnur ekki líf á halastjörnu
Er fljótandi vatn á Mars?
Sjór á Ganymede, stærsta tungli Júpíters