Anopheles_stephensi

Bit moskítóflugna eru ekki bara óþægileg, þeim getur einnig fylgt fjöldi sjúkdóma sem sumir geta verið banvænir. En hvernig í ósköpunum tekst svona litlum flugum að finna mannslíkama til að sjúga blóðið úr og er eitthvað sem við getum gert til að forðast þær? Vísindamenn virðast nú hafa komist að ástæðunum sem liggja þar að baki, að minnsta kosti að einhverju leiti.

Hópur líffræðingar skoðaði hegðum moskítóflugna í vindgöngum og birtu grein um niðurstöður sínar í tímaritinu Current Biology. Í ljós kom að moskítóflugurnar löðuðust að kolvísýringi í andrúmsloftinu, líkamshita og notuðu sjónina til að finna fórnarlamb.

Flugurnar voru sérstaklega hæfileikaríkar í því að finna koltvísýring en það er einmitt mikill koltvísýringur í loftinu sem menn og dýr anda frá sér. Moskítóflugurnar gátu borið kennsl á koltvísýringinn í allt að 50 metra fjarlægð sem gagnast þeim vel þegar finna á fórnarlamb. Hita gátu moskítflugurnar aðeins skynjað yfir stuttar vegalengdir en sjónina gótu þær notað í um 5-15 metra fjarlægð frá fórnarlambinu.

Vísindamenn vissu áður að lyktarskyn, sjón og hiti spiluðu inn í það hvernig moskítóflugur finna líkama til að nærast á en þetta er í fyrsta skipti sem vísindamönnum hefur tekist að komast að því hvernig þessir þrír þættir eru notaðir. Það tókst með því að aðgreina þættina þrjá og prófa sérstaklega hvernig flugurnar svöruðu koltvísýringi, svörtum punkti á gólfinu og ósýnilegri hitaplötu. Með þessu gátu vísindamennirnir séð hvernig viðbrögð við þáttunum spiluðu saman.

Í rannsókninni varð ljóst að flugurnar sýndu punktinum eingöngu áhuga ef eitthvað gaf til kynna að fórnarlamb gæti verið nærri. Þegar punkurinn var notaður einn og sér sýndu flugurnar engin viðbrögð við honum en þegar koltvísýringur var við hann fundu þeir fljótlega koltvísýringinn og í kjölfarið punktinn. Þetta er snjallt að því leiti að það kemur í veg fyrir að flugurnar laðist að dauðum hlutum, líkt og steinum.

Út frá niðurstöðum sínum áætla vísindamennirnir að flugurnar finni sér fórnarlamb í þremur þrepum:

  1. Í fyrstu er notast við lyktarskyn, sérstaklega koltvísýring til að finna fórnarlamb í 10-50 metra fjarlægð.
  2. Flugurnar nota síðan sjónina til að finna eitthvað sem lítur út fyrir að vera dýr af æskilegri tegund og virðast þær geta notast við sjónina í 5-15 metra fjarlægð.
  3. Þegar flugurnar eru komnar mjög nálægt lífverunni (u.þ.b. 1 m) nota þær líkamshitann til að rata að húðinni.

Því miður þýðir þetta að það er afskaplega lítið sem við geum gert til að koma í veg fyrir að moskítóflugur finni okkur að sögn Dr. van Breugel, fyrsta höfundar greinarinnar. Hann stingur þó upp á því að ein lausn gæti verið að fá félaga eða fjölskyldumeðlimi til að vera í áberandi klæðnaði svo flugurnar séu líklegri til að finnast þeir áhugaverðir.