drone4

Maður hefði kannski haldið að birnir hefðu ekki margt að óttast en raunin er önnur. Í ljós hefur komið að birnir eru logandi hræddir við dróna. Það kann að hljóma einkennilega enda er ekki mikið um dróna í villtri náttúru, eða hvað?

Á síðustu árum hafa vísindamenn byrjað að nota dróna í auknum mæli í rannsóknum sínum. Drónar hafa marga kostir, til dæmis er auðvelt að kanna stór svæði með drónum sem erfitt væri að rannsaka fótgangandi og er þannig hægt að spara mikinn tíma.

Vísindamenn við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum birtu þó nýlega grein í tímaritinu Current Biology sem vekur upp spurningar varðandi notkun dróna í rannsóknarskyni. Vísindamennirnir komu GPS ólum og púlsmæli fyrir á svartbjörnum (Ursus americanus) og fengu þannig upplýsingar um staðsetningu bjarnanna og hjartsláttartíðni á tveggja mínútna fresti.

Þegar krögunum hafði verið komið fyrir voru drónar látnir fljúga yfir þau svæði þar sem birnirnir, sem voru fjórir, voru. Í ljós kom að ekki voru miklar breytingar í hegðun bjarnanna – nema þegar drónarnir flugu yfir. Í hvert skipti sem dróni flaug yfir björn jókst hjartsláttartíðni bjarnarins, í eitt skipti var aukningin um 400% (41 slag á mínútu í 162 slög á mínútu).

Niðurstöðurnar benda til þess að notkun dróna í rannsóknum geti haft neikvæð áhrif á dýr á svæðinu sem eru einmitt oft viðfangsefni rannsóknarinna. Næst vill rannsóknarhópurinn kanna hvort birnir í dýragörðum geti vanist drónum til að átta sig betur á því hvaða áhrif tækin hafa á dýrin.

Heimild: IFLScience