plastic-waste

Baráttan við plastið verður sífellt harðari enda virðist plastmagnið í umhverfi okkar margfaldast með hverjum deginum sem líður. Sumar þjóðir hafa því gripið til aðgerða á borð við lagasetningar til að reyna að sporna við of mikilli plastnotkun.

Í Kenía voru nýverið samþykkt lög sem ætlað er að draga úr notkun plastpoka þar í landi. Sem hvatning til framfylgdar lögunum eru hörðustu refsingarnar gegn broti á þeim annað hvort fjögurra ára fangelsi eða rúmlega fjögurra milljón króna sekt ($40.000).

Aðgerðirnar hljóma sannarlega kröftugar, jafnvel of kröftugar, en umhverfisráðherra Kenía, Judi Wakhungu hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að lögunum verður fyrst og fremst beint að þeim sem framleiða og selja plastpoka en ekki endilega gegn almennum borgurum í landinu.

Þrátt fyrir mjög strangan refsiramma, a.m.k. að okkar mati, þá virðist full þörf á að taka plastnotkun föstum tökum í Kenía. Götur bæja og borga eru yfirfullar af plasti sem fýkur um og endar að miklu leiti í meltingarvegi villtra dýra. Bæði villt og alin dýr virðast neyta svo mikils plasts að þau geta ekki nærst eins og vera ber og deyja úr hungri.

Lögin eru því tilraun til að sporna við alvarlegum vanda sem fer ört stækkandi. Við vonum að þau geri sitt gagn og dragi úr plastnotkun. Með þessu er Kenía þá komið í hóp 40 annarra þjóða um allan heim sem hafa fundið sig knúnar til að setja lög á plastneyslu.