B8An11cIAAEa4Cd

Ebólufaraldurinn hefur haft hræðileg áhrif í Afríku undanfarið en það eru ekki bara okkur mönnunum sem stafar hætta af sjúkdómnum.

Margar tegundir mannapa og simpansa eru útsettar fyrir sjúkdómnum en láglendis górillur (Gorilla gorilla) í Mið-Afríku eru í sértstaklega mikilli hættu. Górillurnar lifa á mjög litlu svæði í Gabon, Kongó og Kamerún og hafa komið illa út úr ebólafaraldrinum.

Seint á síðustu öld létust um 90% láglendis górilla í Minkébé þjóðgarði í norðu Gabon úr ebólu. Aðrir faraldrar hafa átt sér stað síðan þá og er áætlað að um 1/3 af stofninum, sem lifir á verndarsvæðum, hafi látist á síðustu 15 árum. Ef ebóla heldur áfram að dreifast um heimsálfuna er líklegt að á næstu 10 árum muni 15% stofnsins í viðbót hverfa. Eins og staðan er í dag myndi það taka um 75 ár fyrir stofninn að ná sér á strik aftur. Ebóla er ekki eini þátturinn í hruni górillustofnsins en hún veikir stöðu hans mikið og hefur tegundin fengið stöðuna “í mikilli útrýmingarhættu” (critically endangered) á IUCN red list, sem má tengja beint við áhrif sjúkdómsins.

Vonir standa til um að hægt verði að bólusetja láglendis górillur til að koma í veg fyrir að þær deyji út. Nú þegar eru til bóluefni sem hafa gefið góða raun í tilraunaöpum og er gert ráð fyrir því að þær muni einnig virka í simpönsum og górillum og er verið að þróa þau til notkunar. Hægt væri að bólusetja dýrin með annað hvort bóluefni sem skotið er í vöðva eða með bóluefni sem er gefið með beitu.

Beitu bóluefni hafa verið notuð með góðum árangri til að bólusetja villt dýr gegn hundaæði og hægt er að nota þau til að ná til margra dýra á stuttum tíma. Þau hafa þó þann ókost að það þyrfti að finna góða beitu sem eingöngu górillur vilja éta. Bóluefnið inniheldur lifandi veiru og það þarf því að gera ítarlegar prófanir á því áður en það er notað á villta dýrastofna.

Bóluefnið sem skotið væri í vöðva er ekki lifandi bóluefni svo það væri öruggara í notkun og því auðveldara að koma því á markað. Gallinn er sá að það er meiri vinna falin í að bólusetja hvert og eitt dýr og ekki möguleiki á því að bólusetja jafnmargar górillur og með beitu bóluefninu.

Gert er ráð fyrir að einhverskonar blanda að báðum aðferum verði notuð til þess að hámarka árangurinn. Slík aðgerð er að sjálfsögðu mjög kostnaðarsöm en er engu að síður mjög mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir útdauða þessarra glæsilegu dýra.

Heimild: Animal Reasearch Info