Vikurnar fyrir jól vakti auglýsing matvöruverslunarinnar Iceland mikla athygli á netinu. Auglýsingin er teiknimynd sem fjallar um órangútanin Rang-tan sem heimsækir svefnherbergi stúlku á Bretland. Hún varpar ljósi á þá sorglegu staðreynd að órangútanar eru nærri útdauðir og má að miklu leyti rekja vanda þeirra til vinnslu á pálmolíu á búsvæðum tegundarinnar.

Auglýsingunni hefur verið dreift víða og hefur henni tekist ætlunarvek sitt að vekja athygli áhrifum pálmolíuræktuna á umhverfið. Umræðan hefur í kjölfarið að einhverju leyti snúið að því að sniðganga vörur sem innihalda olíuna. Niðurstöður skýrslu sem birtist fyrr á árinu benda þó til þess að það sé líklega ekki besta lausnin. Vandinn myndi aðeins færast annað.

Pálmolía í fjölda matvæla

Pálmolía er jurtaolía sem unnin er úr aldinkjöti ávaxtar olíupálma. Olíuna er að finna í fjöldanum öllum af matvælum, til dæmis súkkulaði, ís, smjörlíki, hnetusmjöri og morgunkorni. Þau lönd sem framleiða hvað mest af pálmolíu í dag eru Indónesía, Malasía og Nígería. Malasía er það land sem flytur mesta pálmolíu úr landi.

Ræktun á pálmolíu hefur, líkt og ræktun á öllum matvælum í för með sér landnýtingu. Í tilfelli pálmolíuræktunar í Malasíu hefur ræktunin haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þær þrjár tegundir órangútana sem þar lifa.

Í bráðri útrýmingarhættu

Malasía hefur að geyma náttúruleg heimkynni einu tegundir órangútana heimsins og lifa þær á eyjunum Súmötru og Borneó. Allar þrjár tegundirnar eru í bráðri útrýmingarhættu sem að miklu leyti má rekja til þeirrar búsvæðaeyðingar sem pálmolíuræktun hefur valdið. Búsvæðaeyðingin hefur að sjálfsögðu einnig áhrif á aðrar tegundir á svæðinu þó órangútanar séu þeir sem hvað mest er fjallað um.

Minni landnotkun en sambærilegar olíur

Þrátt fyrir þessu neikvæðu áhrif hefur pálmolía kosti umfram aðrar jurtaolíur. Ræktun á pálmolíu er í raun nokkuð skilvirk með tilliti til landnotkunar. Því til stuðnings má benda á að þó pálmolía sé um 35% af allri jurtaolíu sem framleidd er í heiminum ber ræktun á henni aðeins ábyrgð á um 10% af því landi sem nýtt er til ræktunar á jurtaolíum.

Kæmi til þess að pálmolía væri bönnuð á heimsvísu eða framleiðslu á henni yrði hætt vegna þrýstings frá almenningi þyrfti að finna henni staðgengla. Í skýrslu frá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum sem birtist í júní 2018 er farið yfir það hvaða afleiðingar það gæti haft ef pálmolíuræktun væri hætt.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að landnotkun til ræktunar á jurtaolíum myndi aukast markvert ef pálmolían dytti út. Allt að níu sinnum meira landsvæði þarf til að rækta aðrar tegundir jurtaolíu. Í kjölfarið myndi búsvæðaeyðing tegunda á öðrum svæðum heimsins, til dæmis í Amason frumskóginum aukast markvert.

Höfundar skýrslunnar telja því að þrátt fyrir neikvæð áhrif sé pálmolía komin til að vera og sé hún einn sá besti kostur sem við höfum í dag. Mikilvægast sé að beina spjótum sínum að því að gera pálmolíuræktun sjálfbæra í stað þess að leggja hana niður.

Sjálfbær ræktun á pálmolíu

Eitt af því sem neytendur geta gert til að vinna gegn pálmolíuvandanum er að kaupa aðeins vörur sem innihalda umhverfisvottaða pálmolíu.

Umhverfisvottuð pálmolía er dýrari en hefðbundin pálmolía en vottunin tryggir að ýtrustu kröfum um umhverfisvend sé framfylgt við ræktun olíunnar. Í dag er minna en 20% af pálmolíu heimsins með vottun og er því enn langt í land að öll pálmolía fylgi slíkum stöðlum.

Á undanförnum árum hefur umræðan í samfélaginu að miklu leyti snúið að því að sniðganga pálmolíu alfarið. Með því hefur myndast  því lítill hvati fyrir ræktendur að ganga í gegnum vottunarferlið ef það skilar sér ekki í aukinni sölu á vörum sem innihalda olíuna. Fyrir þá sem vilja leggja málefninu lið er besta lausnin því líklega fólgin í því að styðja við fyrirtæki sem nota aðeins vottaða pálmolíu í vörurnar sínar

Greinin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar.