Mynd: Vahid Salemi/AP
Mynd: Vahid Salemi/AP

Blettatígra tengjum við flest við Afríku, líklega vita færri að eina undirtegund tegundarinnar er að finna í Íran og kallast þeir asískir eða íranskir blettatígrar. Það er í raun ekki að undra að undirtegundin sé lítið þekkt því stofn asískra blettatígra er afar lítill. Nú hefur stofninn náð sögulegu lágmarki og telja sérfræðingar að aðeins séu tvö kvendýr eftir í Íran, eina landinu þar sem undrtegundina er að finna.

Á síðasta áratug hefur verið reynt að vekja athygli á írönsku blettatígrunum og hættunni sem steðjar að þeim með ýmsum leiðum. Blettatígurinn Marita er til dæmis þjóðartákn Íran og hafa blettatígrar prýtt frímerki og landsliðstreyjur fótboltaliðsins. Þrátt fyrir þetta, auk mikils verndarstarfs, hefur blettatígrunum haldið áfram að fækka og er nú talið að aðeins 40 dýr séu eftir í landinu, þar af tvö kvendýr.

Ljóst er að staðan er háalvarleg fyrir undirtegundina sem er flokkuð sem tegund í mikilli útrýmingarhættu á válista Alþjóðlegu náttúruverndaramtakanna, IUCN. Áhrif manna á afkomu tegundannar eru greinileg en á síðustu 15 árum er talið að 48 dýr hafi dáið. Af þeim dó sjö af eðlilegum orsökum, 21 var drepið af bændum, 15 urðu fyrir bíl og fimm voru drepin af veiðiþjófum.

Í dag er aðeins vitað er um tvö kvendýr, eitt í Turan þjógaðinum og hitt á vernarsvæði sem nefnist Miandasht. Ekki hefur sést til annarra kvendýra á síðustu tveimur árum.

Fari svo að tegundin deyji út verður þetta ekki fyrsta stóra kattardýrið sem deyr út í Íran. Áður hafa kaspíatígrisdýr og asísk ljón orðið útdauð í landinu. Kaspíatígrisdýr er nú útdauð á heimsvísu en nokkur asísk ljón er enn að finna á Indlandi.

Írönsku blettatígrasmtökin berjast nú fyrir því að forseti landins grípi inn í meðal annars með því að koma í veg fyrir byggingu vega á svæðum þar sem blettatígrana er að finna, byggja girðingar í kringum vegi sem þegar hafa verið byggðir og hvetja heimamenn til að taka þátt í verndarstarfinu.

Moteza Eslami, formaður samtakanna, segir að ekki sé öll von úti fyrir blettatígra Íran en mikið þurfi að gera til að koma í veg fyrir að tegundin deyji út. Ljóst sé þó að vinna verndunarsinna fram að þessu hafi skilað árgangri og ef ekki væri fyrir hana væri tegundin að öllum líkindum nú þegar horfin fyrir fullt og allt.