Mynd: Brandeis University
Mynd: Brandeis University

Þó sumum finnist þær óhugnalegar eru leðurblökur mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. Til dæmis taka þær þátt í frævun plantna og halda skordýrum í skefjum með því að éta allt að líkamsþyngd sína í skordýrum á einni nóttu.

Leðurblökum stafar því miður ógn af okkur mönnunum og er ein sú ógn vindmyllur. Vindmyllur hafa marga kosti enda eru þær vistvænn orkugjafi en leðurblökur skilja ekki tilgang þeirra og ruglast gjarnan á vindmyllum og trjám. Það gefur auga leið að þegar leðurblökur reyna að koma sér fyrir á vindmyllu endar það ekki vel.

Til þess að reyna að lágmarka skaðann sem leðurblökur verða fyrir vegna vindmylla hafa Bandarísku vindorkusamtökin (AWEA) tilkynnt að vindorkuiðnaðurinn þar í landi muni láta hægja á hraða vindmylla yfir það tímabil sem far leðurblaka fer fram á haustin. Um er að ræða 17 fyrirtæki og vonar AWEA að með þessum aðgerðum verði hægt að koma í veg fyrir allt að 30% árekstra leðurblaka við vindmyllur.

Um er að ræða aðgerðir sem eru, samkvæmt fréttatilkynningunni, byggðar á 10 ára rannsóknum. Að vonum eru náttúruverndasinnar ánægðir með framtakið enda er mikilvægt að vistvænir orkugjafar hafi sem minnst áhrif á lífríkið.