Knut_IMG_8095

Knútur var líklega frægasti ísbjörn allra tíma. Hann dó þó langt fyrir aldur fram og er nú loksins komið í ljós hver orsökin var: sjálfsónæmissjúkdómur.

Þann 19 mars 2011 drukknaði ísbjörninn Knútur í laug í dýragarðinum í Berlín eftir að hafa fengið flog aðeins um fjögurra og hálfs árs gamall. Hingað til hefur ekki verið vitað hvaða ástæður lágu að baki dauða hans en Dr. Harald Prüß við German Center for Neurodegenerative Diseases (DZNE) og Dr. Alexander Greenwood við Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research í Berlín komust loks að því. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Scientific Reports.

Þeir Prüß og Greenwood komust að því að Knútur var með sjálfsónæmissjúkdóm sem nefnist and-NMDA viðtaka heilabólga (anti-NMDA receptor encephalitis). Hingað til hefur sjúkdómurinn aðeins verið þekktur í mönnum og þá einkum konum. Sjúkdómurinn veldur því að ónæmiskerfið ræðst gegn taugafrumum í stað sýkla en meðal einkenna eru flog, ofskynjanir og vitglöp.

Það er stutt síðan sjúkdómurinn var fyrst skilgreindur (árið 2007) og hefur hann aldrei verið greindur í dýri áður. Ekki er vitað hvers vegna Knútur var með sjúkdóminn en vísindamennirnir taka sérstaklega fram ólíklegt sé að ástæðuna megi rekja til þess að hann ólst upp í dýragarði.

Þó svo að ekki hafi verið hægt að bjarga Knúti er greiningin mikilvæg enda gæti hún auðveldað greiningu í öðrum dýrum. Hægt er að meðhöndla sjúkdóminn í mönnum og binda vísindamenn vonir við að svipaðar meðferðir megi nota til að meðhöndla dýr í framtíðinni.