giant-panda-in-the-forest-royalty-free-image_6a531d40d8d864aa

Dýr nýta liti á fjölbreyttan hátt, til dæmis að fela sig fyrir rándýrum, villa fyrir bráð sinni eða til að laða að sér maka. Feldur pandabjarna hefur valdið vísindamönnum hugarangri og hafa þeir lengi velt því fyrir sér af hverju í ósköpunum þeir eru svartir og hvítir. Í grein sem birt var í tímaritinu Behavioral Ecology er fjallað um rannsókn sem reyndi einmitt að svara þessari spurningu.

Í rannsókninni skoðuðu vísindamennirnir lit pandabjarnanna með tilliti til litbrigða annarra dýra og hvernig litir þeirra tengjast þáttum í heimkynnum þeirra. Hópurinn sem samanstóð af vísindamönnum frá University of California, Davis og Californa State University, Long Beach, bar saman mismunandi einkenni pandabjarna við einkenni 39 bjarnategunda og 195 tegundir rándýra.

Samkvæmt greiningu hópsins þótti líklegast að vegna þess að pandabirnir eyða tíma sínum í bæði snjó og í þykkum skógi hafi svarta og hvíta samsetningin komið til sem einhverskonar málamiðlun, þar sem að svarti og hvíti liturinn nýtast á sitthvorum staðnum.

Ólíkt flestum björnum eru pandabirnir grænmetisætur og lifa þeir að mestu leiti á bambus sem er næringasnauður og afar erfitt er að melta. Þannig þurfa birnirnir að éta allan ársins hring þar sem að nánast ómögulegt er fyrir þá að safna nægilegum fituforða til að halda þeim gangandi yfir vetrartímann.

Rannsóknarhópurinn telur að hvítur kviður þeirra og höfuð geti villt fyrir fyrir rándýrum á borð við snjóhlébarða og sjakala yfir vetrartímann á meðan svartir fæturnir gætu verið góður felulitur í þykkum skóginum yfir sumarið.

Hvað varðar svörtu hringina í kringum augu bjarnanna og svört eyru þeirra telur rannsóknarhópurinn líklegra að þessi einkenni gegni hlutverki í samskiptum milli einstaklinga eða jafnvel til að ógna öðrum björnum, frekar en að þau séu hluti af felulitum dýrsins.