killer-whales-1945428_1280

Háhyrningar eru sjaldgæf sjón við strendur Bretlands og telja í raun aðeins átta dýr. Þar til í byrjun janúar voru háhyrningarnir níu en snemma í mánuðinum rak kýrin Lulu á land eftir að hafa flækst í veiðarfærum. Nú hefur ýtarleg rannsókn á hræi Lulu leitt í ljós að óhemju há gildi af PCB efnum höfðu safnast upp í líkama hennar.

Í skýrslu um rannsóknina á Lulu kom í ljós að í spiki hennar var að finna 957 millígrömm af PCB efnum fyrir hvert kíló af spiki. Þetta er margfalt yfir mörkum eitrunaráhrifa auk þess að vera hæstu gildi sem mælst hafa í sjávarspendýri fram að þessu.

PCB efni eru svokölluð þrávirk lífræn efni. Þau voru mikið notuð í framleiðslu upp úr fjórða áratug síðustu aldar og voru losuð út í hafið með frárennsli frá verksmiðjum. Í dag hefur notkun efnanna verið bönnuð en áhrifanna gætir enn.

Efnin brotna hægt niður í umhverfinu og safnast því fyrir í fæðukeðjunni. Því ofar sem komið er í fæðukeðjuna því meira magn finnst og hafa eldri dýr almennt meira af uppsöfnuðum PCB efnum en þau sem yngri eru. Sé mikið af uppsöfnuðu PCB í líkama dýra geta efnin haft neikvæð áhrif á heilsu dýrsins og geta til dæmis aukið líkur á krabbameini og haft áhrif á frjósemi.

Eftir rannsóknir á Lulu kom í ljós að þrátt fyrir að vera 20 ára og hafa átt að vera á hápunkti frjósemi sinnar hafði hún aldrei borið kálf. Þetta þykir benda til þess að eitrunaráhrif PCB efnanna hafi valdið ófrjósemi hjá háhyrningnum.

Ekki hefur fæðst káflur hjá bresku háhyrningunum á síðustu 23 árum og veldur þessi niðurstaða vísindamönnum því miklum áhyggjum. Þeir telja að það kunni að vera að allur hópurinn sé ófrjór sem gæti þýtt endalok stofnsins á svæðinu.