Mynd: Barna Páll-Gergely og Nikolett Szpisjak
Mynd: Barna Páll-Gergely og Nikolett Szpisjak

Nýverið uppgötvuðu vísindamenn við Shinshu háskóla áður óþekkta tegund landsnigla í Guangxi héraði Kína. Mörgum kann að þykja það heldur óspennandi fréttir en snigillinn er þó ansi merkilegur vegna stærðarinnar.

Aðeins fannst einn kuðungur þessarar nýju tegundar, sem hefur fengið heitið Angustopila dominikae, og var hún ekki nema 0,86 millimetrar á hæð. Það þýðir að hægt væri að koma hvorki fleiri né færri en tíu sniglum af tegundinni fyrir í nálarauga.

Mynd: Barna Páll-Gergely
Mynd: Barna Páll-Gergely

Tegundin var skilgreind í grein sem birt var í tímaritinu ZooKeys ásamt sex öðrum. Þar á meðal var tegundin Angustopila subelevata sem var álíka smávaxin. Meðalhæð kuðunga snigla af tegundinni Angustopila subelevata var aðeins örlítið stærri en kuðungur Angustopila dominikae eða 0.87 mm að meðaltali. Enn er fátt vitað um þessar nýju sniglategundir en enga íbúa var að finna í kuðungum þeirra.

Vísindamennirnir telja að Angustopila dominikae gæti verið minnsta landsniglategund veraldar. Ekki tókst að finna DNA þessarar nýju tegundar en líklegt þykir að sniglarnir nærist á örverum og séu tvíkynja.