11.02 tiny monkey pet

Undanfarið hafa agnarsmáir apar orðið áberandi á veraldarvefnum. Um er að ræða dverg silkiapa sem hafa orðið að einskonar tískuæði hjá þeim ríku í Kína. Auknar vinsældir apanna eru annars vegar raktar til þess hversu litlir og krúttlegir þeir eru og hins vegar þess að ár apans gekk nýverið í garð í Kína.

Um er að ræða silkiapa af tegundinni Cebuella pygmaea sem eiga rætur að rekja til vesturhluta Amazon frumskógarins. Aparnir eru taldir vera þeir minnstu í heiminum og vega fullorðnir einstaklingar aðeins um 100 grömm. Í náttúrunni lifa aparnir í fjölskyldum sem samanstanda af foreldrum og afkvæmum og taka báðir foreldrar virkan þátt í uppeldinu.

Það virðist kannski í fyrstu að það sé nokkuð saklaust að fjárfesta í einum litlum apa en svo er því miður ekki. Margar siðferðislegar spurningar vakna upp þegar villt dýr eru gerð að gæludýrum, ekki síst vegna þess að verslun með þau er ólögleg. Í tilfelli smávöxnu silkiapanna er um að ræða unga sem að öllum líkindum eru teknir frá foreldrum sínum og seldir dýrum dómum á svarta markaðnum. Dæmi eru um að einstaklingar hafi keypt einn apa á rúma hálfa milljón íslenskra króna.

Eigendur apanna í Kína hafa verið duglegir að birta myndir af þeim á samfélagsmiðlum og sýna myndirnar oft apana halda sér fast utan um fingur eigandans. Í kjölfarið hafa aparnir fengið viðurnefnið “þumalapar” enda varla mikið stærri en þumall.

Verslun með villt dýr og afurðir þeirra er algeng víða um heim og er oft talað um að markaðurinn sé næstur í röðinni á eftir eiturlyfjum og vopnum. Mikilvægt er að almenningur geri sér grein fyrir vandanum og er einfaldasta leiðin til að bregðast við honum að taka ekki þátt í verslun með villt dýr til að koma í veg fyrir að slík verslun þrífist.