Safari ferðir í þjóðgörðum Afríku, þar sem komist er í návígi við villt dýr eru draumur margra. Með þeim er ekki aðeins hægt að sjá framandi tegundir á einstakan hátt heldur má í leiðinni styðja við verndun þeirra dýra sem þar er að finna.

Jafnvægið á milli ferðamannaiðnaðarins og verndun dýrastofna er þó viðkvæmt. Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu Ecology and Evolution á dögunum benda til þess að ferðamennska geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir sprettharðasta dýr heims, blettatígurinn.

Maasai Mara er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem leggja leið sína til Kenía. Samkvæmt rannsókninni gæti þó verið að ferðamönnunum hafi fjölgað um of á ákveðnum svæðum þjóðgarðsins.

Á þeim svæðum sem gestir eru hvað flestir eiga blettatígrar erfiðara með að koma afkvæmum sínum á legg. Á svæðum þar sem lítið er um ferðamenn ná kvenkyns blettatígrar að koma á legg 2,3 kettlingum úr hverju goti að meðaltali. Þessi tala reynist vera mun lægri á þeim svæðum þar sem ferðamenn eru flestir eða aðeins 0,2 kettlingar að meðaltali.

Þennan sláandi mikla mun má að mati höfunda greinarinna rekja til mikils fjölda ferðamanna þó ekki hafi verið skýr merki um að ferðamennirnir sem slíkir væru valdir af dauða kettlinganna. Það er ekki ólíklegt að áhrifin séu fremur óbein, til dæmis vegna streitu sem tíðar heimsóknir valda dýrunum. Í samtali við The Guardian sagði Femke Broekhuis, ein höfundur greinarinnar, að dæmi séu um það að sami blettatígurinn sé heimsóttur af allt að 64 bifreiðum á dag.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður eru flestir sammála um það að ferðamanniðnaðurinn geti verið nýttur til góðs í dýravernd sé rétt að henni staðið. Það er þó mikilvægt að velferð dýranna sé ætíð höfð í fyrirúmi, til dæmis með því að takmarka aðgang gesta að þjóðgörðum og að bifreiðar haldi sig alfarið á merktum vegum.