bauja

Á veturna myndast kjöraðstæður fyrir stórar öldur í Norður Atlantshafinu en það gerist vegna vinda og loftþrýsings á svæðinu. Eins og við sem byggjum þetta litla land vitum eru siglingaleiðir á þessu svæði mikilvægar fyrir inn- og útflutning á vörum sem og veiðar. Þess vegna er grannt fylgst með ölduhæð í hafinu, með gervihnöttum, mælingum frá skipum en einnig með mælingum frá baujum.

Í febrúar 2013 mældi bauja mitt á milli Íslands og Bretlands öldu sem var 19 metra há. Það er hæsta alda sem mæld hefur verið með bauju hingað til en metið var reyndar staðfest nýlega af WMO (World Meteorological Organization).

Þetta er þó ekki stærsta alda sem hefur verið mæld en árið 2000 var tekin mæling af rúmlega 29 metra hárri öldu, sú mæling fór þó fram á skipi. Sú alda var einnig staðsett í Norður Atlantshafinu en eins og áður segir eru hér kjöraðstæður fyrir slíkar öldumyndanir.

Mælingar sem þessar sýna okkur enn og aftur hversu miklir kraftar búa í hafinu. En sigling á 19 metra háum öldum er ekkert grín. Áframhaldandi mælingar eru mikilvægar til að tryggja öryggi þeirra sem sigla þessar leiðir en á sama tíma mikilvægt tæki til að fylgjast með hegðun sjávar sem mögulega gæti breyst samhliða hlýnun jarðar.