KP_267861_crop_640x360

Svo virðist sem að simpönsum þyki álíka skemmtilegt og mörgum mönnum að fá sér í glas – eða í þessu tilfelli laufblað. Niðurstöður rannsóknar sem birt var í Open Science sýna fram á að simpansar í Bossou í Gíneu hafa gert það að vana að fá sér pálmavín. Simpansarnir nota laufblöð til að drekka vínið, líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Styrkur pálmavínsins er að meðaltali 3% en getur orðið allt upp í 7% svo líklegt er að simpansarnir geti orðið frekar ölvaðir. Við rannsóknir sínar sáu vísindamennirnir greinilega að vínið hafði áhrif á hegðun dýranna sem virtust drukknir. Það kemur kannski ekki á óvart þar sem að þeir drukku að meðaltali því sem samsvarar einni vínflösku. Einn simpansanna drakk meira að segja yfir þrjá lítra af víninu í einni lotu.

En hvernig nálgast simpansar vínið? Í Bossou er vaninn að fólk safni pálmavíni með því að skera fleyglaga skurði í trén svo trjákvoðan leki út. Kvoðan safnast síðan fyrir í dalla sem komið er fyrir undir skurðinum. Kvoðunni er loks safnað kvölds og morgna. Simpansarnir nýta sér tímann á milli þess að kvoðunni er safnað til að gæða sér á henni en að því er virðist aðeins yfir daginn. Það mætti þess vegna kalla þá dagdrykkjuapa.

Ekki er vitað hvort simpansarnir fá timburmenn eftir drykkjuna en rannsóknarhópurinn tók þó eftir því að þeir voru oft eirðarlausir nóttina eftir drykkju.