tumblr_nlsaiv9rWE1tmuypno1_1280

Hugmyndin um að endurvekja tegundir sem hafa orðið útdauðar í náttúrinni skjóta reglulega upp kollinum. Þessar raddir hafa verið háværar upp á síðkastið eða allt síðan vel varðveittir mammútar fundust í Síberíu. Nú færumst við enn nær því að geta framkvæmt það að endurvekja útdauða tegund því vísindamönnum hefur tekist að raðgreina erfðaefni mammútanna tveggja. Rannsóknin var samstarfsverkefni vísindamanna frá Harvard háskóla, Náttúruminjasafns Svíþjóðar og háskólans í Stokkhólmi og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Current Biology.

Mammútarnir sem um ræðir voru annars vegar uppi fyrir 40.000 árum og hins vegar fyrir 4.3000 árum. Yngri mammútinn sýndi lítinn erfðafjölbreytileika sem bendir til þess að mikil innræktun hafi átt sér stað þegar hann var uppi sem er dæmigert fyrir það þegar stofnar dýra minnka.

Skiptar skoðanir eru á því hvort það sé góð hugmynd að endurvekja mammúta og sagði Dr. Love Dalén sem leiddi rannsóknarhópinn í samtali við BBC að hann vilji ekki að niðurstöðurnar séu notaðar í þessum tilgangi. Hann segist frekar vilja nota þekkinguna til þess að dýpka skilning okkar á ástæðum þess að dýr verða útdauð. Það eru þó ekki allir á sama máli og Dr. Dalén og segjast samtök í San Francisco sem nefnast Long Now Foundation vilja endurvekja mammúta í þeim tilgangi að sleppa þeim lausum í náttúrunni.

Hér að neðan má sjá Stuart Brand hjá New Long Foundation flytja Ted fyrirlestur um möguleikann á því að endurvekja útdauð dýr.