Mynd: ScienceAlert
Mynd: ScienceAlert

Kvikasilfursmengun er verulegt vandamál á ákveðnum svæðum í heiminum, bæði í fæðu og drykkjarvatni. Allt of mikið magn af kvikasilfri mælist í sjávardýrum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni og þar af leiðandi borðum við meira magn af kvikasilfri en getur talist æskilegt. Vísindamenn við Flinders University í Ástralíu hafa nú uppgötvað leið til að nýta appelsínubörk til að losa okkur við þessa mengun.

Efnið er fjölliða, eða löng efnakeðja, sem kallast brennisteins – límonene pólýsúlfíð (sulphur-limonene polysulfide). Til að búa til fjölliðuna þarf brennistein, úrgangsefni sem fellur til í gríðarlega miklu magni í olíuiðnaði, og límonene sem er að finna í appelsínuberki. Bæði grunnefnin verða nú þegar til í öðrum iðnaði og gegna engu öðru hlutverki í dag.

Efnið virðist ekki vera eitrað sjálft sem er mikill kostur því það gefur möguleikann á því að dreifa því víða til að draga í sig mengun. Hópurinn sem hannaði efnið vinnur nú að því að finna leiðir til að húða vatnslagnir með efninu svo úr verði innbyggt hreinsunarkerfi. Einnig stendur til að setja klumpa af efninu ú sjó og vötn þar sem kvikasilfursmengun er mikil.

Þegar efnið verður til myndar það dökkrautt gel eins og sést á myndinni hér að ofan þegar það síðan bindur kvikasilfur þá skiptir efnið um lit og verður gult. Það er því innbyggður nemi í fjölliðunni sem gefur til kynna hvort kvikasilfur er til staðar eða ekki. Litabreytinguna má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Hægt er að lesa sér enn frekar til um rannsóknina hér.