Mynd: Yfirborðhitastig á landi og í sjó árin 1880-2016 // Stephan Okhuijsen, datagraver.com
Mynd: Yfirborðhitastig á landi og í sjó árin 1880-2016 // Stephan Okhuijsen, datagraver.com

Síðustu ár hafa verið að slá hvert hitametið á fætur öðru og var árið 2015 það heitasta frá því að mælingar hófust. Fyrra met átti árið 2014. Sérfræðingar hafa spáð því að árið 2016 muni slá meta fyrri ára og virðist það ætla að ganga eftir miðað við það hvernig árið fer af stað.

Janúar mánuður var sá heitasti hingað til og nú hefur verið staðfest að febrúar var það einnig. Þetta nýja hitamet er þó ólíkt því sem áður hefur sést þar sem að hitastig norðan miðbaugs mældist 2℃ hærra en fyrir iðnbyltingu.

En hvaða þýðingu hefur það? Jú, það er einmitt það sem mannkynið á að vera að sporna gegn og var markmið Loftlsagráðstefnunnar í París 2015 að finna leiðir til að koma í veg fyrir að meðalhækkun hitastigs á jörðinni fari yfir 2℃.

Rannsóknir benda til þess að fari hlýnun jarðar yfir 2℃ hafi það skelfilegar afleiðingar, líkt og Hvatinn hefur áður fjallað um. Meðal afleiðinganna eru miklar öfgar í veðurfari, aukin úrkomu og hækkandi yfirborð sjávar. Ekki er útilokað að þessar afleiðingar komi fram við hærra hitastig en rannsóknir benda til en einnig getur verið að þær komi fram við lægra hitastig.

Eins og áður kom fram var það einungis hitastigshækkunin á norðurhveli jarðar sem fór yfir 2℃ og á hækkunin því ekki við um alla jörðina. Að auki stendur El Niño yfir þessi misserin og hefur veðurfyrirbrygðið áhrif á hitastig víðsvegar um heiminn.

Þessar nýju tölur eru þó mikið áhyggjuefni sem ekki ætti að hunsa enda gæti mannkynið lent í vanda fyrr en áætlað hefur verið ef þróunin heldur áfram á sömu braut.