Samtök álframleiðenda hafa stofnað til endurvinnsluátaks á áli utan af sprittkertum. Átakið kemur á góðum tíma enda eru fjölmargir sem kveikja á sprittkertum á vetrarmánuðunum, sér í lagi yfir hátíðirnar.

Tilgangur átaksins er að vekja athygli á því að mikilvægt er að endurvinna ál á heimilum og hjá fyrirtækjum auk þess að hvetja fólk til að skila áli til endurvinnslu.

Endurunnið ál má nýta á ýmsa vegu og að því er kemur fram á vefsíðu Samáls má meðal annars smíða heilt reiðhjól úr aðeins þúsund sprittkertum. Í ljósi þess að áætlað er að Íslendingar noti um 3 milljónir sprittkerta á ári er ljóst að sprittkertin geta komið að góðum notum eftir að vaxið er bráðnað.

Hægt er að skila kertunum í um 90 endurvinnslustöðvar á landinu eða setja þær í þar til gerðar tunnur fyrir utan heimili.

Átakið stendur til 31. janúar 2018 og má nálgast frekari upplýsingar um það á vefsíðu Samáls og á Facebook síðu verkefnisins.

Auk Samáls standa eftirfarandi fyrirtæki og samtök að verkefninu: Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – Samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.