desert-2

Þó svo að það sé aðeins áttundi mánuður ársins 2016 tókst mannkyninu að klára auðlindir Jarðar fyrir árið í gær, mánudaginn 8. ágúst. Auðlindirnar klárast í ár fimm dögum fyrr en árið 2015.

Það er Global Footprint Network sem reiknar út notkun auðlinda ár hvert og notar til þess gögn frá Sameinuðu þjóðunum, þar af gögn frá yfir þúsunda atvinnugeira á borð við sjávarútveg, samgöngur og orkuframleiðslu.

Global Footprint Network hefur reiknað sig aftur til ársins 1960 og samkvæmt niðurstöðum þeirra nýtti mannkynið auðlindir Jarðar á sjálfbæran hátt fram til ársins 1970 þegar auðlindirnar kláraðust þann 23. desember. Auðlindirnar fyrir árið hafa síðan þá klárast sífellt fyrr ári hvert.

Þó fréttirnar séu slæmar er einn ljós punktur í þessu öllu saman því svo virðist sem að það hægist á því hvenær auðlindirnar klárast. Að meðaltali hafa auðlindirnar klárast þremur dögum fyrr á hverju ári síðan 1970, nema síðustu fimm ár en meðaltalið er þá minna en einn dagur.

Það er ýmislegt sem lönd heimsins reyna nú að gera til að sporna gegn ofnýtingu auðlinda og hlýnun Jarðar. Í því samhengi má til dæmis nefna að Costa Rica tókst að nota aðeins endurnýjanlega orkugjafa til að knýja landið í 75 daga í röð. Að auki var 95% rafmagns í Þýskalandi í fyrra frá endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur Kína það að markmiði að minnka kjötneyslu þar í landi um 50% til ársins 2030.