0,,15854051_303,00

Áhrif hlýnunar jarðar koma sífellt betur í ljós og er nýjasta vandamálið aukinn hafís, samkvæmt frétt á vefsíðu Science. Vísindamenn sem starfa á Suðurskautslandinu hafa tekið eftir því að bráðnun jökla á svæðinu fylgir mikil aukning á hafís. Hafísinn hefur þau áhrif að skip eiga erfiðara með að komast leiða sinna og að koma vistum að landi.

Vandamálið er talið svo alvarlegt að sérfræðingar frá 30 löndum munu halda fund um málið í Ástralíu í vikunni. Ástæður aukningarinnar eru nú þegar nokkuð vel þekktar en samkvæmt Tony Worby hjá Antartic Climate and Ecosystem Cooperative Research Centre (ACE CRC) er ástæðan að miklu leyti tengd vindum á svæðinu. Vindarnir við Suðurheimskautið eru mun meiri en við Norðurheimskautið og blása ísnum frá heimsálfunni sem leiðir til frekari myndunar á hafís við strendur Suðurskautslandsins.

Þessi vitneskja hjálpar skipstjórum þó ekki að sigla um svæðið enda er erfitt að spá fyrir um hvar hafís verður hverju sinni. Á síðustu árum eru dæmi um að hreinlega hafi ekki verið mögulegt að komast að ákveðnum svæðum á ströndinni og hefur stundum verið brugðið á það ráð að notast við þyrlur. Þyrlur eru þó ekki raunhæfur möguleiki til lengri tíma litið enda eru þær bæði dýrar og hafa takmarkað notagildi.

Á áðurnefndum fundi er ætlunin að fara yfir stöðuna og reyna að finna lausnir á vandamálinu. Það er þó hægara sagt en gert og kemur til með að kosta mikla vinnu. En vandamálin eru til þess að leysa þau og segir Worby að ólíklegt sé að þjóðir heimsins muni gefast upp á rannsóknum á Suðuskautslandinu þrátt fyrir erfiðar aðstæður.