extra_large-1486985501-cover-image

Óvenju heitt hefur verið í Ástralíu undanfarið með tilheyrandi óþægindum fyrir menn og dýr. Ávaxtaleðurblökur af tegundinni Pteropus poliocephalus virðast hafa komið hvað verst út úr hitabylgjunni og hafa yfir 700 þeirra drepist vegna hitans. Flest dauðsfallanna hafa átt sér stað í Singleton í New South Wales þar sem hitinn náði 47°C um síðustu helgi.

Að hluta til má rekja vandann til þess að á síðustu áratugum hafa leðurblökurnar verið hraktar frá heimkynnum sínum vegna uppbyggingar mannabústaða á svæðinu. Leðurblökurnar hafa því sífellt færri staði til að komast í skugga trjáa til að verja sig gegn sólinni þegar hitabylgja gengur yfir.

Leðurblökurnar eru nokkuð stórar og hafa um eins metra langt vænghaf. Þær spila mikilvægt hlutverk í frævun bæði trjáa og blómplantna á stórum svæðum í Ástralíu en vegna þess að tegundin er skilgreind sem viðkvæm tegund á válista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna hafa náttúruverndarsinnar miklar áhyggjur af ástandinu í vikunni.

Líkt og margar aðrar leðurblökutegundir ber tegundin með sér sjúkdóma sem geta verið hættulegar mönnum. Þar á meðal eru Hendra veiran og ástralska leðurblöku lyssaveiran sem er náskyld hundaæðisveirunni. Það er því mikilvægt að mannfólk forðist snertingu við dýrin og láti sérfræðinga sjá um að fjarlægja líkamsleifar þeirra.

Hér að neðan má sjá tvö myndbönd af ástandinu í Ástralíu.