Mynd: Ian Ransley
Mynd: Ian Ransley

Bananar eru vafalaust einn vinsælasti ávöxtur heims en því miður gætu þeir hreinlega dáið út vegna skæðrar sveppasýkingar af völdum Fusarium oxysporum sem veldur sjúkdómi sem kallast Panama veiki.

Á síðustu árum hefur nýr stofn sveppasýkingarinnar, Tropical Race 4 (TR4), dreifst hratt um jörðina frá Suð-Austur Asíu til Mið-Austurlanda, Afríku og Ástralíu. Í grein sem birt var í tímaritinu PLOS Pathogens kemur fram að sýkingin sé svo útrbeidd að hún ógnar bananaframleiðslu heimsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bönunum er ógnað en á sjötta áratugnum voru nær allir bananar af gerðinni Gros Michel þurrkaðir út af sveppasýkingu af völdum Fusarium oxysporum. Í kjölfarið var þróuð ný gerð banana sem þoldi Fusarium oxysporum og nefnist hún Cavendish. Í dag eru 47% allra banana sem ræktaðir eru af Cavendish gerðinni en nýr stofn Fusarium oxysporum hefur komið fram á sjónarsviðið sem getur sýkt þá.

Til þess að fá fram bananana sem við þekkjum í dag var sérstaklega valið fyrir bönunum með litlum fræjum þar til fengust frælausir bananar og eru bæði Cavendish og Gros Michel bananar í raun klónar. Þetta er afar hentugt þegar það kemur að því að rækta banana en gerir þá aftur á móti viðkvæmari ef sýkingar á borð við Panama veikina koma upp.

Höfundar greinarinnar hvetja til þess að hafist sé handa við að rækta ný afbrigði af bönunum auk þess að þróa betri greiningaraðferðir og einangrunaraðgerðir fyrir mengaðan jarðveg.