Ný rannsókn á styrk þrávirkra lífrænna efna sýnir fram á að bann gegn þeim hefur skilað árangri. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem var unnin af vísindamönnum frá sex löndum birtist í tímaritinu Science of the Total Environment í ágúst.

Hvað eru þrávirk lífræn efni?
Þrávirk lífræn efni (e. persistent organic pollutants) er samheiti yfir efnasambönd sem hafa þann eiginleika að þau brotna hægt niður og geta því safnast fyrir í umhverfinu. Að auki geta efnin borist langt frá upphaflegum losunarstað og þannig haft víðtæk áhrif.

Þrávirk lífræn efni eru þess eðlis að dýr geta ekki losað þau úr líkamanum á skilvirkan hátt. Þetta þýðir að efnin safnast fyrir í vefjum dýra. Styrkur þrávirkra lífrænna efna í lífverum eykst eftir því sem ofar er komið í fæðukeðjuna. Efnin eru tekin upp af dýrum neðst í fæðukeðjunni. Þau dýr eru síðan étin af dýrum ofar í fæðukeðjunni, líkt og fiskum sem loks eru étin að rándýrum efst í fæðukeðjunni, til dæmis ísbjörnum og hvölum. Þetta á auðvitað ekki síður við um mannfólk, leggi það sér til munns aðrar lífverur sem orðið hafa fyrir mengun.

Ýmis neikvæð áhrif
Rannsóknir á þrávirkum lífrænum efnum hafa sýnt fram á að þau geta haft ýmis neikvæð áhrif á dýr. Til dæmis geta mörg efnanna valdið vandamálum við æxlun og þroska. Einnig geta þau valdið tauga- og ónæmissjúkdómum.

Þau efni í þessum flokki sem eru hvað best þekkt eru líklega efnið DDT og PCB efni. DDT kom fyrst á markað á fimmta áratugnum sem skordýraeitur á meðan PCB efni voru notuð sem kælivökvar frá þriðja áratug síðustu aldar. Bæði efnin voru bönnuð á áttunda áratugnum vegna skaðsemi þeirra.

Stokkhólmssamningurinn undirritaður
Árið 2001 undirrituðu 152 lönd samning í Stokkhólmi þar sem þau skuldbundu sig til að draga úr notkun þrávirkra lífrænna efna og vinna að því að draga úr útbreiðslu efnanna í náttúrunni. Við undirritun samningsins náði hann til 12 efna sem þá voru mest notuð. Síðar bættust fleiri efni við samninginn og eru þau í dag yfir 30 talsins. Löndin sem hafa viðurkennt samninginn eru einnig orðin fleiri og eru þau nú 182.

Árangur á norðurslóðum metinn
Vistkerfi á norðurslóðum eru afar viðkvæm, ekki síst þegar kemur að mengun. Þrávirk lífræn efni hafa í gegnum tíðina borist á norðurslóðir bæði vegna staðbundinnar mengunar af völdum þeirra þar, en að auki geta þau borist annars staðar frá.

Til að greina hvort Stokkhólmssamningurinn væri að skila tilskyldum árangri unnu vísindamenn frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum saman við að meta styrk þrávirkra lífrænna efna í sjávarspendýrum, skeldýrum og sjófuglum. Sýni voru síðan borin saman við eldri sýni frá níunda og tíunda áratugnum.

Í ljós kom að dregið hafði úr styrk efna sem höfðu verið bönnuð eða takmörkuð á síðustu áratugum. Mest hafði dregið úr efnasambandinu a-HCH sem er aukaafurð skordýraeitursins lindane. Áætlað var að dregið hefði úr styrk efnisins um 9% á ári hverju. Að auki hafði styrkur PCB efna minnkað um nær 4% á ári. Önnur efni höfðu minnkað í minni mæli. Efnin β-HCH and HCB höfðu til að mynda dregist saman um 3% á ári.

Ekki voru niðurstöðurnar alfarið jákvæðar því nokkur efnanna höfðu aukist á ákveðnum svæðum. Mat rannsóknarhópsins var að ástæðan væri sú að svæðin væru enn undir áhrifum staðbundinnar mengunar. Að auki var erfitt að meta breytingar á efnum sem komu fram á síðari árum vegna þeirrar staðreyndar að langtímagögn yfir áhrif þeirra eru ekki enn til staðar.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar