Mynd: Flowertown Bee Farm and Supplies
Mynd: Flowertown Bee Farm and Supplies

Zika veiran veldur eðlilega áhyggjum í þeim löndum þar sem veiran er orðin landlæg og reynir fólk ýmislegt til að fyrirbyggja smit. Í Suður Karólínufylki Bandaríkjanna var á dögunum brugðið á það ráð að eitra fyrir moskítóflugum með hræðilegum afleiðingum fyrir býflugur fylkisins.

Eitrunin fór fram á þann hátt að flugvél flaug yfir hluta fylkisins og dreifði skordýraeitri. Því miður hafði eitrið ekki aðeins áhrif á moskítóflugur heldur einnig önnur skordýr og ber þá helst að nefna býflugur sem drápust í hrönnum. Íbúar fylkisins hafa fundið milljónir dauðra býflugna á víð og dreif og hafa heilu búin drepist.

Dauði býflugnanna er mikill missir fyrir vistkerfið, þar sem þær gegna mikilvægu hlutverki, en einnig er hann áfall fyrir býflugnabónda sem hafa sumir misst bú sín.

Ástæðu eitrunarinnar má rekja til þess að fjögur tilfelli zika veirunnar greindust í fylkinu, öll hjá einstaklingum sem ferðast höfðu til svæða þar sem veiran er landlæg. Yfirvöld tóku í kjölfarið ákvörðun um að dreifa skordýraeitri um ákveðin svæði fylkisins til að fyrirbyggja að veiran næði þar fótfestu.

Eitrunin fór fram á milli 6:30 og 8:30 að morgni sem er einmitt tími þar sem býflugur geta verið í ætisleit. Þó eðlilegt sé að yfirvöld hafi haft áhyggjur af því að zika veiran tæki sér bólfestu í fylkinu virðist þó vera að ákvörðunin hafi verið tekin án nægilegrar umhugsunar en almennt mælst til þess að dreifing á eitri fari fram að nóttu til þegar býflugur eru líklegastar til að vera í búinu og því ólíklegri til að verða fyrir eitruninni.