Mynd: ABC news
Mynd: ABC news

Það er fleiri sem veldur hættu og truflunum í heiminum en veðrið. Yfirvöld í Bejing í Kína tilkynntu 7. desember að rautt stig, hæsta stig mengunar, væri í gildi í borginni. Búist er við að mengunarstigið verði viðvarandi að minnsta kosti fram á fimmtudag, en þá munu veðuraðstæður sennilega breytast.

Á meðan er fólki ráðlagt að eyða ekki miklum tíma utandyra, skólum og leikskólum er lokað ásamt verksmiðjum sem gefa frá sér mikla mengun. Reynt er að takmarka bílaumferð með því að leyfa bílum með oddatölu í lok bílnúmersins að keyra einn daginn og svo næsta dag bílum með slétta tölu í lok bílnúmers. Yfirvöld búast því við að fólksfjöldi í almenningssamgöngum muni margfaldast og því er reynt að mæta með því að fjölga strætisvögnum.

Fleiri borgir í Kína kljást við sama vandamál og eins og sést á myndinni hér að neðan sem fengin er af heimasíðu ABC news er eins og borgin sé undir þykkri ábreiðu mengunar. Á heimasíðu NASA má sjá gervitunglamyndir sem sýna hvernig stór hluti Kína liggur undir mengunarskýinu.

Mynd: ABC news
Mynd: ABC news

Viðbrögð íbúa Bejing eru mismunandi en margir kvarta yfir hægagangi yfirvalda þar sem rauðu stigi hafi í raun verið náð miklu fyrr. Hættustigin sem hér er miðað við tóku gildi árið 2013, en þau eru fjögur og er rautt efsta stig mengunar. Mengun í Kína er orðin svo mikil að talið er að hún valdi þremur milljónum dauðsfalla á ári og þykir mörgum nóg um og krefja yfirvöld um markvissar aðgerðir til að draga úr mengun til lengri tíma.

Eins og margir vita fer nú loftslagsráðstefna sameinuðu þjóðanna fram í París og þar hafa Kínverjar gefið út yfirlýsingar þess efnis að þau muni ekki láta sitt eftir liggja til að draga úr hækkandi hitastigi jarðar sem felst þá að miklum hluta í að draga úr mengun.