Mynd: Mota
Mynd: Mota

Nú þegar hitastigið fer hækkandi taka blóm eins og aðrar plöntur við sér og fara að blómstra sínu fegursta. Blómin eru ekki bara falleg þau lykta líka vel, en þau senda frá sér alls kyns efnablöndur sem örva lyktarskynið til að laða að sér skordýr eða önnur dýr til að bera gróin sín eða fræ. Þessi athöfn að búa til lykt er langt í frá orkusparandi fyrir plöntuna, þetta er mikilvæg athöfn til að viðhalda tegundinni og þess vegna leggur plantan mikla orku í að búa þessa lykt til. En eins og með svo margt annað í náttúrunni þá gætu þessir ferlar farið úr skorðum ef hlýnun jarðar heldur áfram sem horfir.

Í rannsókn sem unnin var við Hebrew University of Jerusalem skoðaði doktorsnemi framleiðslu tveggja plantna á lyktarefnum við mismunandi hitastig, annars vegar við dagshitastigið 22°C og hins vegar 28°C, að auki var næturhitastigið breytilegt, 16°C og 22°C. Þegar hann svo einangraði fenýlprópanóíð tengd efni úr plöntunum kom í ljós að plöntur sem uxu við hærra hitastig framleiddu marktækt minna af slíkum efnum sem eru lyktarefnin plantnanna.

Þetta verður að segjast að er heldur óvænt aukaverkun hnattrænnar hlýnunar en það er þó eðlilegt að breyting á utanaðkomandi þáttum eins og hitastigi hafa áhrif á tjáningu gena. Frekari rannsóknir eru í farvatninu við háskólann í Jerúsalem en ýmsum spurningum er enn ósvarað eins og til dæmis hvort það sama sé uppá teningnum hjá öllum plöntum eða hvort lyktin minnki ekki bara heldur breytist.

Eitt er þó ljóst að með minnkandi ilmi frá plöntum þá breytist ekki bara rómantísk mynd mannskepnunnar á sumartímann, heldur veldur þetta kannski ennþá áhrifameiri breytingum í hegðun fjölda dýra.