Árið 1992 birtu um 1700 vísindamenn viðvörunarbréf þar sem talin voru til atriði sem steðjuðu lífi mannsins á jörðinni í hættu. Listinn var langur og náði yfir mengun jarðar og andrúmslofts, hnignun í tegundafjölbreytni, þynning ósonlagsins og tap skóglendis. Viðvörunarbréfið endaði á heilræðum til okkar – mannkynsins – til að breyta betur og laga það sem betur mætti fara til að koma í veg fyrir óafturkræfar hörmungar.

Af þessum langa lista hefur tekist að snúa einu atriði til betri vegar og það er þynning ósonlagsins. Eftir áratuga bann á ósoneyðandi efnum erum við loks farin að sjá árangur erfiðisins og gatið er farið að minnka. Því miður höfum við ekki horft uppá neinar framfarir á öðrum sviðum og hinar neikvæðu afleiðingar mannkynsins fara ört versnandi.

Af því tilefni lagði vísindafólk frá 184 löndum nafn sitt við nýtt viðvörunarbréf þar sem vísað er í þá hnignun sem vísindaheimurinn hefur horft uppá eiga sér stað á jörðinni. Að undanskildu ósonlaginu eru öll sömu atriðin talin upp og farið var yfir í viðvörunarbréfinu árið 1992 og að auki hefur bæst á listann.

Vegna hegðunar mannsins og vanvirðingu okkar gagnvart náttúrunni og jörðinni okkar hefur, síðan árið 1992:

  • Aðgangur að hreinu vatni hefur minnkað um 26%
  • Dauðum svæðum í hafinu, þar sem ekkert líf þrífst vegna m.a. mengunar, hefur fjölgað um 75%
  • Tegundafjölbreytileiki hefur minnkað um 29%
  • Skóglendi á jörðinni hefur minnkað á kostnað byggingarlands eða ræktunarlands fyrir matvæli
  • Kolefnislosun í andrúmsloftið nær nýjum metum nær árlega
  • Mannkyninu hefur fjölgað um 35%

 
Það er því ljóst að við verðum öll að bregðast við til að bjarga plánetunni okkar og þar með okkur sjálfum. Árgangurinn sem hefur náðst með ósonlagið sýnir að með samstöðu er hægt að finna góðar lausnir.

Fjöldinn allur af verkefnum hafa sprottið upp til að vekja athygli á og hvetja til lífstíls sem er meira í takt við náttúruna, má þar nefna Loftslagsmaraþonið, Plastlaus september og Zero-waste Iceland og þá eru ekki upptalin öll sú vinna sem snýr að verndun dýrategunda og endurheimt vistkerfa.

En betur má ef duga skal!

Samkvæmt þeirri nýju viðvörun sem rúmlega 15.000 einstaklingar úr vísindageiranum hafa lagt nafn sitt við, þýðir ekki lengur að stinga höfðinu í sandinn. Hlýnun jarðar og útrýming dýrategunda er ekki lengur vandamál sem á sér stað annars staðar eða í fjarlægum tíma. Þetta er að eiga sér stað núna og hér og það erum við sem verðum að takast á við það.

Sem betur fer búum við yfir fullt af lausnum, við þurfum bara að hjálpast að við að nota þær. Stjórnvöld bera að sjálfsögðu heilmikla ábyrgð í þessum málum, en það er einnig okkar að kalla eftir því að eitthvað verði gert og þar að auki er margt sem við getum byrjað að gera nú þegar. T. d. passa uppá ruslið okkar, endurvinna, endurnýta, labba í vinnuna eða keyra frekar rafmagnsbílinn, svo eitthvað sé nefnt.

Hvað sem við gerum þá verðum við að byrja strax í dag.