screen-shot-2017-05-22-at-21-04-50

Úrgangsförgunarfyrirtæki á Bretlandi, BusinessWaste, hvetur framleiðendur til að hætta framleiðslu á plaströrum og framleiða þess í stað rör úr pappa. Jafnframt hvetur fyrirtækið til þess að settir séu tollar á plaströr til að hvetja neytendur til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir biðja um rör í drykkinn sinn.

Talsmaður BusinessWaste, Mark Hall, bendir á að plaströr séu almennt aðeins notuð í um 20 mínútur áður en þeim er hent. Hann kallaði plaströr auk þess eina mestu sóun mannkynsins.

Að sögn Hall eru plaströr sjaldan endurunnin af fyrirtækjum sem bjóða upp á þau í drykki, þau endi fremur í tunnum með blönduðum úrgangi. Fyrirtækið er þeirra skoðunar að lausnin sé einföld: að setja tæplega 7 krónu toll (5 pence) á rörin. Slíkur tollur væri í anda tolla á plastpoka á Bretlandi sem hafa minnkað notkun plastpoka í landinu verulega.