Nýverið rak búrhval á strendur Spánar. Hvalreki er þekkt fyrirbæri en í þetta sinn er hann fréttnæmur vegna þess hvað fannst við krufningu á dýrinu. Í meltingarvegi dýrsins fundu vísindamenn 29 kílógrömm af plasti sem hvalurinn hafði innbyrt.

Við krufninguna fannst plast af ýmsu tagi. Þar má til dæmis nefna plastpoka, reypi, net og plastbrúsa. Með svo mikið plast í meltingarveginum telja sérfræðingar að miklar bólgur hafi myndast í lífhimnu hvalsins, svipað því sem á sér stað þegar um bakteríu- eða sveppasýkingu er að ræða. Að lokum dó hvalurinn af völdum plastátsins.

Atburðir líkt og þessi verða sífellt algengar og hafa hvalir áður fundist með mikið plast í meltingarveginum. Það má síst búast við því að vandinn komi til með að minnka enda er um 5,2 trilljón tonn af plasti í hafinu. Talið er að talan gæti þrefaldast til ársins 2025.

Með aukinni vitundarvakningu er mannkynið að verða sífellt meðvitaðri um áhrif sitt á umhverfið og standa vonir til um að með auknum reglugerðum um notkun á plasti og framlagi einstaklinga munum við geta dregið töluvert úr notkun á plasti. Erfitt reynist þó að draga úr því plastmagni sem þegar er að finna í hafinu og getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífríkið í hafinu til framtíðar.