Bee-apis

Býflugur gegna mikilvægu hlutverki í náttúrunni en því miður hefur þeim farið hratt fækkandi vegna skyndidauða býflugnabúa (e. Colony Collapse Disorder) sem talið er að rekja megi til notkunar manna á skordýraeitri. Nú hefur ný rannsókn leitt í ljós að býflugur geta orðið háðar neonicotinoid skordýraeitri á svipaðan hátt og menn verða háðir nikótíni.

Rannsóknin var gerð við háskólann í Newcastle og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Nature. Býflugunum voru boðnar tvær sykurlausnir, eina hreina og eina sem innihélt skordýraeitur með virka efninu neonicotinoid. Býflugurnar völdu frekar lausnina sem innihélt eitrið og benda niðurstöðurnar til þess að þær fari í vímu af efninu. Rannsóknarhópurinn segir býflugurnar ekki finna bragð af eitrinu svo ekki er hægt að skýra niðurstöðurnar þannig að bragðið af skordýraeitrinu laði þær að. Frekar er talið að ávanbindandi eiginleikar þess valdi því að býflugurnar sækjast í það.

Neonicotinoid skordýraeitur eru gríðarlega mikið notuð um allann heim til dæmis á maís, bómull, soyabaunir og meirihluta grænmetis og ávaxta í Bandaríkjunum. Neonicotinoid skordýraeitur drepa ekki býflugur en talið er að þau geti haft skaðleg áhrif á taugakerfi þeirra sem gæti að lokum dregið þær til dauða.

Áður hafa rannsóknir bent til þess að neonicotinoid gæti verið sökudólgurinn í skyndidauða býflugnabúa. Í kjölfarið bannaði Evrópusambandið notkuna þriggja slíkra efna á blómstrandi nytjaplöntur í tvö ár frá árinu 2013. Þessar nýju niðurstöður benda enn frekar til þess að efnin séu skaðleg býflugum og er það von vísindamanna að þeim verði skipt út fyrir önnur efni í framtíðinni.

Heimild: ScienceAlert