Mynd: Jezebel
Mynd: Jezebel

Tímamót urðu í kvöld, 12. desember, þegar loftslagsamningur var samþykktur á loftlagsráðstefnunni COP21 í París. Samþykkt var að takmarka skuli hlýnun jarðar við 2ºC en þó er markmiðið að hlýnunin fari ekki yfir 1,5ºC. Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar og er því um að ræða söguleg tímamót. Það var utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sem tilkynnti um niðurstöðuna og sló hamarshögg því til staðfestingar við mikinn fögnuð viðstaddra.

Meðal þeirra atriða sem koma fram í samningnum eru að takmarka skuli hækkun á meðalhitastigi jarðar og að hún skuli vera “vel undir” 2ºC en reynt verður að takmarka hana við 1,5ºC. Í samningnum kemur einnig fram að hápunkti í losun gróðurhúsalofttegunda skuli ná eins fljótt og auðið er en tekið er fram að það muni taka lengri tíma í þróunarlöndunum.

Hvert land hefur sett sér markmið til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og verður staðan endurskoðuð á fimm ára fresti.

Að því er kemur fram á vefsíðu BBC er samningurinn að hluta til lagalega bindandi og að hluta til valfrjáls.