light-bulb-current-light-glow-40889

Á tímum þar sem kolanotkun Íslendinga stígur uppá við berast þau gleðitíðindi frá Mið-Ameríku að notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum er að aukast. Síðastliðið ár notuðu íbúar Costa Rica jarðefnaeldsneyti til framleiðslu á einungis 1,88% þess rafmagns sem þau þurftu. Í stað kola eða olíu var t.d. notast við vatn, vind eða sól.

Í augum Íslendinga er þetta kannski ekki mikið afrek, hér fáum við nánast eingöngu rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum sem þessum en það er því miður einsdæmi og mjög mörg ríki nota jarðefnaeldsneyti til að búa sér til rafmagn. Það má auðvitað deila um það hveru umhverfisvænar virkjanir á borð við vatnsaflsvirkjanir eru en þær hafa það fram yfir jarðefnaeldsneyti að þær má nýta oftar en einu sinni.

Það að Costa Rica setji svo mikla áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa sýnir að þjóðir sem kannski hafa minni pening milli handanna geta samt sem áður lagt sitt af mörkum til að halda hitastigi jarðar í skefjum. En framtök sem þessi ættu einnig að vera stóru þjóðunum sem losa hvað mest af koldíoxíði, enn meiri fyrirmynd.

Stjórnvöld í Costa Rica stefna nú á að breyta samgönguflotanum svo hann verði umhverfisvænni. Er þá sérstaklega horft til rafmagnslesta svo dæmi sé tekið. Þó við Íslendingar teljum okkur vera framarlega hvað varðar notkun á endurnýjanlegri orku er alltaf hægt að bæta sig, t.d. með breyttum almenningssamgöngum og fækkun farartækja sem nota jarðefnaeldsneyti.