Erfðabreyttar lífverur eða genetically modified organism (GMO) hefur lengi vel verið skammaryrði meðal neytenda. Það að erfðabreyta lífveru til að auka á einhvern hátt þær afurðir sem við getum fengið af henni er lítið stundað sökum þess hver strangar reglur gilda um nýtingu slíkra lífvera en tæknin er svo sannarlega til staðar.

Fjölmargar aðferðir hafa verið notaðar til að eiga við erfðaefni lífvera sem við leggjum okkur til munns og margar hverjar teljum við náttúrulegar og eðlilegar aðferðir til að ýta undir fjölbreytileikann, svo sem krossæxlun plöntutegunda.

Það sama gildir því miður ekki um erfðabreytingar á sameindastigi, en sú hræðsla er sennilega að miklu leiti tilkomin vegna skilningsleysis á þeim flóknu aðferðum sem er beitt auk þess sem erfðabreytingunum er oft komið inní lífveruna með erfðabreyttum veirum.

Tiltölulega nýlega uppgötvaðist mjög nákvæmt kerfi sem bakteríur hafa nýtt sér í aldanna rás til að berjast gegn sýklum og kallast CRISPR. Þetta kerfi hefur nú verið tekið í gagnið inná rannsóknarstofum víða um heim en er þá nýtt sem tæki til að breyta erfðaefninu.

Það sem CRISPR hefur framyfir hefðbundnar aðferðir er í fyrsta lagi hversu nákvæm tæknin er og í öðru lagi að hún treystir ekki á veirur til að innlima erfðaefnið inní viðtakalífveruna.

Í lok síðasta mánaðar sendi US Department of Agriculture (USDA), ein af þremur eftirlitsstofnunum Bandaríkjanna með matvælaframleiðslu, frá sér yfirlýsingu þess efnis að matvæli sem væru tilkomin vegna erfðabreytinga þar sem notast er við CRISPR aðferðina féllu ekki lengur undir sama hatt og önnur erfðabreytt matvæli. Ástæðan er m.a. sú að slíkar lífverur bera ekki veiru sem gæti dreift erfðabreytingunni í aðrar lífverur.

Það sem forsvarsmenn USDA bera einnig kennsl á í yfirlýsingu sinni er að nú liggur á að auka matarframboð á mjög skömmum tíma. Eitt af því sem erfðabreytingar á matvælum miða að er að auka uppskeru plantanna og gera þær harðgerari og þolnari gagnvart náttúrulegum vám, líkt og sníkjudýrum eða þurrkatíð. Með hefðbundnum kynbótum plantna mun það taka áratugi að draga þessa eiginleika plantanna fram. CRISPR styttir biðtímann eftir harðgerum plöntum því gríðarlega.

Eins og áður sagði er USDA ein af þremur stofnunum sem fer með eftirlit á matvælaframleiðslu í Bandaríkjunum. Hennar hlutverk liggur helst í því að vernda plöntustofna, þ.e. að vernda þær plöntur sem sjá okkur fyrir matvælum til að m.a. tryggja matvælaöryggi.

Hinar tvær stofnanirnar eru Environmental Protection Agency (EPA), sem einblínir að mestu á að viðhalda öryggi umhverfisins og Food and Drug Administration (FDA) sem skoðar hlutina útfrá öryggi matvælanna við neyslu. Hlutverk þessara stofnanna skarast mjög, sér í lagi hvað varðar eftirlit með erfðabreyttum matvælum og eru reglugerðir þeirra samstilltar að því marki sem við á.