Moonfish

Þeir sem tóku eftir í líffræðitímum í grunnskóla muna kannski að almennt séð eru fiskar með kalt blóð. Undantekningar á þessu eru sumar tegundir háffiska og túnfiska. Þessum tegundum tekst þó ekki að halda hitastigi blóðsins stöðugu og þurfa að koma upp að yfirborðinu reglulega til að ná hitastiginu upp. Enn sem komið er þekkja vísindamenn aðeins eina fiskategund sem getur dvalið á djúpsævi og haldið blóði sínu heitu. Tegundin nefnis guðlax (Lampris guttatus) og lifir á allt að 305 metra dýpi.

Í fyrstu var það ráðgáta hvernig tegundinni tekst að halda líkamshita sínum stöðugum á þessu mikla dýpi en vísindmenn hjá Bandarísku hafrannsóknarstofnuninni (NOAA) telja sig nú hafa fundið ástæðu þess, samkvæmt frétt EurekAlert. Talið er að guðlaxar haldi líkamshita sínum stöðugum með því að blaka eyruggunum af miklum krafti. Við það hitna vöðvar og blóð í kringum uggana og er blóðinu síðan dælt um líkamann.

Það að hafa heitt blóð á miklu dýpi hefur mikla kosti fyrir tegundina en almennt séð hreyfa fiskar og aðrar tegundir sem lifa á miklu dýpi sig hægt til þess að spara orku. Með því að ná að halda blóðinu heitu getur guðlaxinn hreyft sig hraðar sem auðveldar honum að næla sér í bráð og ferðast langar vegalengdir.