wildebeest-crossing-mara-river2

Á hverju ári leggja hundruðir þúsunda gnýja (e. wildebeest) leið sína yfir Serengeti sléttuna í Afríku til að komast á betri beitilönd. Leiðin er löng og hættuleg, svo hættuleg að þúsundir dýranna drukkna ár hvert við það að fara yfir Mara ánna í Kenýa. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru fyrr í mánuðnum er dauði dýranna síður en svo til einskis heldur hefur hann mikilvæg jákvæð áhrif á vistkerfið.

Um 6.200 gnýja drukkna ár hvert við það að reyna að fara yfir Mara ánna. Þetta samsvarar um 1.000 tonnum af lífmassa sem verður eftir í ánni og brotnar niður þar. Mjúku vefirnir eru fyrstir til að brotna niður og tekur það aðeins nokkrar vikur. Bein dýranna eru hins vegar töluvert lengur að hverfa og gera það yfir nokkurra ára tímabil, á meðan losa þau næringarefni út í ánna sem nýtast íbúum hennar vel.

Fjölmargar lífverur geta nýtt sér næringarefnin frá hræjunum í ánni. Fiskar eru gjarnan fyrstir til og telur rannsóknarhópurinn að fiskar í ánni fái allt að 50% fæðu sinnar frá mjúkum vefjum gnýjanna. Hópurinn telur að fuglar, til dæmis storkar og hrægammar, éti allt að 10% mjúku vefjanna og krókódílar um 2%.

Þegar mjúkir vefir dýranna eru horfnir halda beinin áfram að gefar frá sé næringarefni eins og áður sagði og geta haldið áfram að losa næringarefni út í ánna í allt að sjö ár.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru sérstaklega áhugaverðar vegna spurninganna sem þær vekja. Áður fyrr gengu vísundar í N-Ameríku og kvaggar (útdauð undirtegund sebrahesta) í S-Afríku til dæmis langar leiðir þar til þeim snarfækkaði vegna áhrifa manna. Ekki er ólíklegt að áhrif þessara ferða á vistkerfið hafi að einhverju marki verið svipuð og gnýjanna og því vakna spurningar um hversu víðtæk áhrif hvarf stórra stofna fardýra hefur á aðrar tegundir vistkerfisins.

Rannsóknin var gerð af hópi vísindamanna við Cary Institute of Ecosystem Studies og niðurstöður hennar birtust í tímaritinu PNAS.