Mynd: Ecosia
Mynd: Ecosia

Lofstlagsbreytingar eru vandi sem allir kannast við og keppist fólk um allan heim nú við að finna lausnir á honum. Leitarvélin Ecosia samanstendur einmitt af fólki sem vill hjálpa til við að leysa loftslagsvandann og ver fyrirtækið meirihluta tekna sinna í að gróðursetja tré.

Leitarvélin virkar líkt og aðrar leitarvélar, það er notendur slá inn leitarorð til að finna ákveðnar heimasíður eða upplýsingar. Á sama hátt og aðrar leitarvélar má finna auglýsingar á leitarsíðum Ecosia og er það þannig sem leitarvélin er fjármögnuð. Munurinn er sá að ólíkt öðrum leitarvélum gefur Ecosia 80% af gróða sínum til gróðursetningaverkefna. Eins og er eru tré gróðursett í Burkina Faso, Madagascar og Perú í nafni Ecosia.

En hvernig vitum við að Ecosia sé að standa við stóru orðin? Notendur geta fylgst með því hversu mörgum nýjum trjám leitar þeirra hafa skilað með teljara í hægra horni leitarvélarinnar. Í hverjum mánuði birtir fyrirtækið síðan skýrslu þar sem greint er frá því í hvað tekjur fyrirtækisins fóru og hversu mörg tré voru gróðursett. Einnig birtir Ecosia fréttir um samfélögin sem sjá um að gróðursetja trén og hagnast af vinnunni og afurðunum.

Myndband um leitarvélina má sjá hér að neðan og svo er auðvitað hægt að byrja að gróðursetja á Ecosia.org.