Samkvæmt nýrri skýrslu um ástand fuglastofna heimsins er ein af hverjum átta tegundum fugla í hættu á útdauða. Meðal þeirra eru lundar (Fratercula arctica) sem Íslendingar þekkja vel.

Það eru samtökin BirdLife International sem gáfu út skýrsluna. Í henni er heilbrigði fuglastofna í heiminum metið. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni í ár er að stofnar 40% þeirra 11.000 fuglategunda sem er að finna á Jörðinni fari hnignandi.

Í yfirlýsingu frá samtökunum er sagt frá því að þó ástæða hnignunar fuglastofna heimsins sé drifin af mismunandi þáttum eigi ástæðurnar það sameiginlegt að vera af mannavöldum. Helsta ástæðan sé landbúnður sem er algeng orsök búsvæðaeyðingar og hefur, samkvæmt skýrslunni áhrif á 74% þeirra fuglategunda sem eru í hættu. Aðrar ástæður sem nefndar eru eru til dæmis skógarhögg, veiðar og öfgakennt veðurfar vegna loftslagsbreytinga.

Fréttirnar eru þó ekki eingöngu neikvæðar því nokkrar tegundur fóru úr því að vera flokkaðar sem tegundir í mikilli útrýmingarhættu í það að vera í útrýmingarhættu samkvæmt flokkun á válista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Að auki benda niðurstöðurnar til þess að 25 tegundir hefðu dáið út ef ekki væri fyrir tilstillan verndunarstarfs.