Mynd: Bebeto Mathews/Associated Press
Mynd: Bebeto Mathews/Associated Press

Það sem gæti verið kallað “fiskasvik” er vaxandi vandamál á heimsvísu, samkvæmt niðurstöðum skýrslu á vegum samtakanna Oceana. Samantekt á yfir 200 rannsóknum í 55 löndum leiddi í ljós að ein af hverjum fimm fiskafurðum er ranglega merkt með tilliti til tegundar.

Algeng ástæða vörusvikanna er sparnaður hjá þeim sem selja fiskafurðir. Veitingahús taka til dæmis sum upp á því að selja ódýrari fisktegundir sem dýrari til að spara pening. Sumir ganga svo langt að hreinlega finna upp nýjar tegundir líkt og var raunin í Brasilíu þar sem markaðir seldu tegundina “douradinha” sem ekki er til í náttúrunni.

Vörusvik eru ekki eini vandinn sem fylgir ranglega merktum pakkningum. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða sölu á fisktegundum sem eru í útrýmingahættu og jafnvel getur neysla ákveðinna tegundia haft slæmar heilsufarsafleiðingar. Dæmi um þetta eru tegundir sem innihalda hátt magn af kvikasilfri. Að auki hafa úttektir á sushi veitingastöðum í Bandaríkjunum leitt í ljós að yfir helmingur “túnfisks” á veitingastöðum var í raun tegund sem nefnist escolar en hún getur valdið svæsnum niðugangi í þeim sem leggja hana sér til munns.

Vandamálið virðist vera að aukast, samkvæmt því sem kemur fram í skýrslunni, en vonir standa til að hertar reglur muni draga úr vandanum. Góðu fréttirnar eru þær að ekkert sýnanna sem tekið var í Reykjavík var ranglega merkt.

Gagnvirkt kort af niðurstöðunum má finna hér.