amur-leopardXL_233224

Allt að ein af hverjum sex tegundum gæti dáið út vegna hlýnunar jarðar, samkvæmt rannsókn sem birt var í Science á dögunum. Í rannsókninni skoðaði Dr. Mark Urban frá háskólanum í Conneticut gögn úr 131 rannsókn um hættuna sem stafar að tegundum vegna hlýnunar jarðar. Fyrri rannsóknir höfðu gefið mjög ólíkar niðurstöður eða allt frá 0%-54% hættu. Dr. Urban gerði safngreiningu á þeim rannsóknum sem áður höfðu verið gerðar og reiknaði út einskonar meðaltal fyrri rannsókna.

Eins og staðan er í dag er hættan á því að tegund deyji út talin vera 2,8%. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar mun sú tala hækka í 5,2% ef meðalhiti jarðar hækkar um tvær gráður og 16% ef meðalhitinn hækkar um fjórar gráður, eins og spáð er. Þau svæði sem eru í mestri hættu eru Suður Ameríka, Ástralía og Nýja Sjáland vegna þess fjölda sérhæfðra tegunda og einstakra búsvæða sem þar eru.

Þær tegundir sem líklegast eru til þess að deyja út eru, eins og gefur að skilja, þær sem hafa litla aðlögunarhæfni og búa á einstökum búsvæðum. Tegundir sem eiga auðveldara með að færa sig um set og lifa á búsvæðum sem er að finna víða koma til með að eiga auðveldara með að aðlagast breyttum aðstæðum.

Niðurstöðurnar undirstrika áhrif hlýnunar jarðar og hvaða áhrif hún mun hafa ef ekkert er að gert. Samkvæmt Dr. Urban er mikilvægt að huga að þremur þáttum til að stöðva framvindu hnattrænnar hlýnunar. Í fyrsta lagi er mikilvægt að búa til áætlun um það hvernig við ætlum að koma í veg fyrir frekari hlýnun jarðar. Í öðru lagi leggur hann til að betri módel sem spá fyrir um það hvernig tegundir komi til með að bregðast við hlýnuninni séu útbúin. Þannig sé hægt að áætla hvaða tegundum stafar helst hætta af hlýnunni. Í þriðja lagi þarf síðan að gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda þær tegundir sem eru í hvað mestri hættu.

Heimildir: BBC og Popsci