finding-dory-xlarge

Fjölmargir bíða spenntir eftur framhaldinu af vinsælu kvikmyndinni Leitinni að Nemó sem verður frumsýnd 17. júní næstkomandi. Myndin ber heitið Leitin að Dóru en eins og glöggir muna var Dóra einstaklega gleyminn fiskur sem aðstoðaði við leitina að Nemó.

Því miður má búast við því að vinsældir myndarinnar hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir hinar raunverulegu Dórur í hafinu.

Í kjölfar vinsælda fyrri myndarinnar, árið 2003, jókst eftirspurn eftir trúðafiskum mikið og að sögn samtakanna Saving Nemo eru allt að milljón trúðafiskar fjarlægðir úr heimkynnum sínum ár hvert. Þetta kann að hljóma örlítið kaldhæðnislegt þar sem það er einmitt það sem kom fyrir Nemó í myndinni. Í dag vinna samtökin að því að rækta trúðafiska til að mæta þessari miklu eftirspurn svo hægt sé að vernda villta trúðafiska og kóralrifin sem þeir lifa í, auk þess að fræða almenning um sjávarlíffræði.

Það sem vísindamenn óttast í dag er að Leitin að Dóru muni auka eftirspurnina enn frekar auk þess að auka eftirspurn eftir “Dórum” sem bera tegundaheitið Paracanthurus hepatus.

Vandamálið er að ekki er hægt að leysa auknar vinsældir Dóru með því að rækta fleiri Dórur þar sem að erfitt er að rækta tegundina í fiskabúrum. Nær eina leiðin til að eignast slíkan fisk er því ef hann hefur verið veiddur villtur.

Vegna þessa hefur Saving Nemo farið af stað með verkefni til að vekja athygli á vandamálinu og vonast til þess að fá “rödd Dóru”, Ellen DeGeneres með sér í lið. DeGeneres hefur áður talað gegn því að fiskar séu hafðir í búrum svo ætla má að hún sé á sama máli og sérfræðingar.