Bald Eagle

Þó að margar tegundir dýra séu í útrýmingarhættu tekst okkur einstaka sinnum að snúa þeirri þróun við. Gott dæmi um verkefni sem hefur gengið vel er vernd skallaarnarins (Haliaeetus leucocephalus) í Bandaríkjunum.

Stofn skallaarna var hætt kominn á miðri síðustu öld vegna ofveiði, bæði á örnunum sjálfum og bráð þeirra, DDT eitrunar og búsvæðaeyðingar vegna ágangs manna. Talið er að einungis 500 pör hafi verið eftir í 48 fylkjum. Ákveðið var að reyna að snúa þessari þróun við og árið 2007 var tegundin tekin af lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu en fjöldi para hafði þá tífaldast.

Þrátt fyrir þetta eru þessir fallegu fuglar ekki óhultir enn. Samkvæmt Matthew Wills, sem skrifaði grein um málið í JSTOR Daily hér, geta eiturefni líkt og kvikasilfur og blý haft neikvæð áhrif á ernina og valdið taugaskaða, breytingum á hegðunarmynstri og haft neikvæð áhrif á æxlun þeirra. Stofn skallaarna er því enn viðkvæmur og bendir Wills á að ekki megi gleyma því að hlýnun jarðar kann að hafa áhrif í framtíðinni.