Carbon-Dioxide

Eins og flestir hafa nú þegar heyrt, lesið, séð eða fundið er hlýnun jarðar raunverulega að eiga sér stað. Stór hluti hnattrænnarhlýnunar er vegna aukins magns koldíoxíðs í andrúmslofti. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir virðast yfirvöld í heiminum ekki hafa bolmagn til að sporna nægilega hratt við losun gróðurhúsalofttegunda og því þarf frekari aðgerða við. Þess vegna hafa vísindamenn brugðið á það ráð að reyna að beisla koldíoxíð úr andrúmsloftinu til að nýta í orkugjafa.

Þrjú slík sprotafyrirtæki Carbon Engineering, Global Thermostat og Climeworks leita nú eftir fjármagni til að koma á laggirnar koldíoxíðsgeymslu fyrir framtíðar framleiðslu á orkugjafa.

Hugmyndafræðin sem liggur að baki er byggð á áralöngum rannsóknum en mikil þróunarvinna liggur fyrir. Þó allt gangi þrautalaust fyrir sig eru fjárfestar fyrir slík verkefni ekki á hverju strái þar sem gróði fyrirtækjanna er ekki væntanlegur í fyrirsjáanlegri framtíð. Hins vegar er gróði umhverfisins óumdeilanlegur, svo með því að koma svona geymslu á laggirnar græða allir, þó gróðinn verði kannski ekki talinn í krónum.

Hvernig fyrirtækin munu vinna að bindingu koldíoxíðs, er útskýrt í myndbandinu hér fyrir neðan. Einnig má lesa um verkefnið í frétt The Guardian

Annað nærtækara dæmi um fyrirtæki með jafn háleitar hugmyndir um koldíoxíðs bindingu er fyrirtækið Carbon Recycling, sem er staðsett á Íslandi, nánar tiltekið við Bláa Lónið. Carbon Recycling hefur þróað aðferðir til að vinna koldíoxíð úr andrúmslofti, sem kemur frá virkjuninni í Svartsengi. Framleiðsla Carbon Recycling miðar mest að metanóli, en mikil rannsóknarvinna liggur að baki slíkri framleiðslu og því eins gott að fá þolinmóða fjárfesta sem sjá ekki bara hagnað í hugmyndinni heldur einnig gróðann fyrir náttúruna við beislun koldíoxíðs.